Körfubolti

Bynum framlengir við Lakers

Andrew Bynum er hér í baráttu við Greg Oden hjá Portland, en þeir eru tveir af efnilegustu miðherjum NBA deildarinnar
Andrew Bynum er hér í baráttu við Greg Oden hjá Portland, en þeir eru tveir af efnilegustu miðherjum NBA deildarinnar NordicPhotos/GettyImages

Miðherjinn ungi Andrew Bynum hefur skrifað undir nýjan fjögurra ára samning við LA Lakers sem tekur gildi næsta vetur. Samningurinn gæti fært honum 58 milljónir dollara í laun á samningstímanum samkvæmt LA Times.

Bynum er 21 árs gamall og er talinn mikið efni, en hann meiddist í janúar á síðustu leiktíð og spilaði ekki meira með liðinu á tímabilinu. Hann missti því af úrslitaeinvígi Lakers og Boston í sumar.

Hann hefur lengi staðið í samningaviðræðum við Lakers en umboðsmaður hans hafði heimtað fimm ára samning með 17 milljónir dollara að meðaltali í árslaun, en forráðamenn Lakers voru aðeins tilbúnir að borga honum um 11 milljónir að meðaltali á ári.

Lendingin var sú að hann fær rúmar 14 milljónir árlega að meðaltali á samningstímanum og þar af fær hann 42 milljónir fyrir fyrstu þrjú árin - með möguleika á fjórða árinu fyrir 16 milljónir.

Bynum er með 2,8 milljónir dollara í árslaun í vetur, en ef samkomulag þetta hefði ekki tekist milli aðila í dag - hefðu önnur félög geta boðið honum samning frá og með júlí nk. Lakers hefði þó geta jafnað hvert það tilboð sem í hann hefði borist.

Miðherjinn ungi skoraði 13 stig, hirti 10 fráköst og varði rúm 2 skot að meðaltali í leik með liði Lakers í fyrra í þeim 35 leikjum sem hann spilaði. Hann er að margra mati lokapúslið í liði Lakers sem ætti að verða í fremstu röð næstu árin.









NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×