Viðskipti innlent

Landvinningar í Kína

Óskar Jónsson
Óskar Jónsson Fréttablaðið/Arnþór

Óskari Jónssyni, forstjóra Green Diamond, datt í hug að framleiða harðkorna skósóla í kjölfar þess að Ólafur Jónsson í Nýiðn hóf framleiðslu á harðkorna dekkjum. Óskar hóf þróun á verkefninu árið 2000 sem leiddi til þess að hann vann nýsköpunarverðlaunin á Íslandi og Evrópuverðlaunin árið 2003 í Belgíu.

Þremur árum síðar kom Árni Þór Árnason að verkefninu sem fjárfestir og fyrir rúmu ári bættist fjárfestingarfélagið Kjalar í hópinn. „Í Kína eru árlega framleidd 10 milljarðar skópara en 70 prósent allrar skóframleiðslu eru í Suður-Kína. Ég fór því út einn míns liðs og vann að uppsetningunni á verksmiðjunni. Í dag erum við með 2.400 fermetra verksmiðju og 35 manns í vinnu," segir Óskar.

Verksmiðjan er í Zhong­shan og framleiðir harðkorna sóla og sprautusteypta plastinn­sóla sem fyrirtækið hefur einkaleyfi á í Asíu. „Fyrsti viðskiptavinur okkar var Cintamani en núna erum við í þróunar­verkefnum með Adidas, Nike, Timberland og Lacross. Auk þess framleiðum við alla innsóla í dömuskó frá Ecco." Green Diamond hefur nýlega gert samning við Ecco um framleiðslu á 5 milljónum para á næstu þremur árum. „Við höfum fengið til liðs við okkur undirverktaka þannig að heildarframleiðslugeta okkar gæti verið 30 til 40.000 pör á dag. Í framtíðinni geri ég mér vonir um að við munum bæta við fleiri vélum þannig að framleiðslu­getan okkar gæti mögulega farið upp í 100.000 pör á dag."

Óskar er bjartsýnn á framhaldið þrátt fyrir að framleiðslukostnaður í Kína hafi aukist um 50 prósent á síðustu 3 árum í kjölfar nýrrar vinnulöggjafar, hækkandi bensín­verðs og veikingar dollarans. „Ég held að Kínverjar muni framleiða enn meira eftir 5 til 10 ár. Kínverjarnir eru snjallir kaupsýslumenn og hafa skapað sér dýrmæta þekkingu auk þess sem innanlandsmarkaður í Kína fer ört stækkandi."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×