Körfubolti

NBA: Detroit kláraði Philadelphia

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Andre Iguodala reynir að stöðva Tayshaun Prince
Andre Iguodala reynir að stöðva Tayshaun Prince Nordic Photos / Getty Images
Aðeins einn leikur fór fram í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í nótt en Detroit vann öruggan sigur á Philadelphia og tryggði sér þar með sæti í annarri umferð úrslitakeppninnar.

Detroit vann 23 stiga sigur, 100-77, og þar með rimmuna 4-2 eftir að hafa lent 2-1 undir. Detriot skoraði fyrstu tíu stigin í leiknum í nótt og hafði strax mikla forystu eftir fyrsta leikhluta, 30-12. Sigurinn var því aldrei í hættu.

Detroit vann síðari hálfleikinn í fjórða leiknum í rimmu liðanna með 57 stigum gegn 38 og eftir það hafði liðið mikla yfirburði. Síðustu tveir leikirnir unnust samtals með 40 stigum.

„Það tók okkur smá tíma að komast í taktinn en þegar það kom og við áttuðum okkur á hvernig væri best að spila gegn þeim gekk þetta vel hjá okkur," sagði Chauncey Billups, leikmaður Detroit, eftir leikinn. Hann skoraði 20 stig í leiknum en Richard Hamilton var stigahæstur með 24 stig.

Andre Iguodala var stigahæstur hjá Philadelphia með sextán stig.

Detroit mætir Orlando í næstu umferð úrslitakeppninnar og hefst rimma liðanna á morgun í Detroit.

Í kvöld eru þrír leikir á dagskrá NBA-deildarinnar og verður hægt að sjá tvo þeirra í beinni útsendingu. Atlanta tekur á móti Boston sem hefur 3-2 forystu í rimmunni og hefst leikurinn á miðnætti í kvöld. Hann verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sporti.

Klukkan 01.30 í nótt hefst svo leikur Utah og Houston þar sem fyrrnefnda liðið hefur 3-2 forystu. Sá leikur verður í beinni útsendingu á NBA TV sem er á rás 48 á Digital Ísland.

Þá mætast einnig Cleveland og Washington en fyrrnefnda liðið hefur 3-2 forystu í þeirri rimmu en leikið verður á heimavelli Washington.
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×