Erlent

Áður óþekktir hlutar Merkúrs opinberast

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Hluti af yfirborði Merkúrs.
Hluti af yfirborði Merkúrs. MYND/NASA

Vísindamenn hjá NASA hafa skoðað 95 prósent af yfirborði Merkúrs með aðstoð könnunarfarsins Messenger sem nýlega flaug hjá reikistjörnunni og fer að líkindum á sporbaug um hana árið 2011.

Myndirnar frá Messenger hafa varpað ljósi á áður huldar lendur þessarar innstu og minnstu reikistjörnu sólkerfisins og segir Sean Solomon, stjórnandi verkefnisins, að þar á meðal séu um 30 hundraðshlutar yfirborðsins sem mannsaugað hafi aldrei áður séð með neinu móti.

Hann segir Merkúr að mörgu leyti ólíkan Mars og tunglinu, á Merkúr séu fleiri og stærri gígar auk þess sem mjög stórir hlutar hans hafi ekki tekið neinum breytingum í geysilangan tíma, svo sem vegna jarðhræringa eða loftsteinahraps. Frá þessu séu þó undantekningar því á nokkrum hásléttum Merkúrs séu virk eldfjöll sem breyti reglulega um svip. Reglulega í augum vísindamanna NASA getur þó hæglega vísað til þess að eitthvað hafi síðast hreyfst þar löngu fyrir Krists burð.

Myndataka með þrívíddartækni gerir vísindamönnunum kleift að greina yfirborð Merkúrs á mun nákvæmari hátt en nokkurn tímann áður hefur verið unnt svo þeim hjá NASA leiðist ekkert í vinnunni þessa dagana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×