Körfubolti

NBA: Ótrúlegur sigur Atlanta

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn Boston fylgjast agndofa með leiknum.
Leikmenn Boston fylgjast agndofa með leiknum. Nordic Photos / Getty Images
Það var nóg um að vera í NBA-deildinni í nótt. Atlanta vann Boston og jafnaði rimmunna í 3-3 en Utah og Cleveland komust áfram í aðra umferð.

Utah vann samtals 4-2 sigur á Houston og Cleveland vann sömuleiðis 4-2 sigur á Washington.

En stærsta og óvæntasta frétt úrslitakeppninnar er sú staðreynd að rimma Boston og Atlanta - liðin með besta (Boston) og versta (Atlanta) árangur allra liða í úrslitakeppninni - er komin í oddaleik.

Atlanta vann Boston, 103-100, og jafnaði þar með rimmuna í 3-3. Sjöunda viðureignin, oddaleikurinn, fer fram á morgun í Boston klukkan 17.00 að íslenskum tíma.

Sem fyrr reyndist Joe Johnson lykilmaður í liði Atlanta en hann setti niður þrist þegar rúm mínúta var til leiksloka og Atlanta náði að halda út síðustu mínútuna og tryggja sér þriggja stiga sigur.

Allir leikirnir í þessari rimmu hafa unnist á heimavelli og því verður að teljast líklegt að það muni ekki breytast á morgun. En þessi rimma hefur sýnt að það er á öllu von.

Leikmenn Boston virtust hreinlega ekki trúa eigin augum. Paul Pierce fékk sína sjöttu villu og sat síðustu mínúturnar á bekknum með handklæði yfir hausnum.

Atlanta skoraði fyrstu körfuna í leiknum en Boston leiddi allt fram í fjórða leikhluta. Forysta liðsins var tólf stig í öðrum leikhluta og níu í þeim þriðja en Atlanta neitaði hreinlega að gefast upp.

Snemma í fjórða leikhluta náði Atlanta forystunni, 83-82, og liðin skiptust á að halda henni allt til loka.

Marvin Williams var stigahæstur hjá Atlanta með átján stig þó svo að hann hafi misst af stærstum hluta fjórða leikhluta vegna hnémeiðsla.

Hjá Boston var Kevin Garnett stigahæstur með 22 stig en Ray Allen var með 20 stig.

Utah vann Houston, 113-91, og mætir LA Lakers í annarri umferð úrslitakeppninnar. Fyrsti leikurinn í rimmunni verður á morgun í Los Angeles klukkan 19.30.

Sigur Utah var einkar mikilvægur í því ljósi að hefði oddaleik þurft til hefði hann farið fram á heimavelli Houston.

En sterk frammistaða í þriðja leikhluta varð til þess að Utah kláraði rimmuna á heimavelli. Deron Williams skoraði þrettán af sínum 25 stigum í leiknum þá en Utah vann leikhlutann með 27 stigum gegn ellefu.

Tracy McGrady reyndi hvað hann gat en hann gat ekki klárað Utah-liðið einn síns liðs þó svo að hann skoraði 40 stig í leiknum. Þetta var sjöunda rimma hans í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og í öll sjö skiptin hefur liðið hans fallið úr leik. Luis Scola skoraði fimmtán stig fyrir Houston en aðrir voru undir tíu stigum.

Rafer Alston hefur átt við meiðsli að stríða í vor en hann byrjaði leikinn. Hann meiddist þó í öðrum leikhluta og sóknarleikur Houston náði sér aldrei almennilega á strik eftir það.

Mehmet Okur skoraði nítján stig fyrir Utah og tók þrettán fráköst þar að auki. Carlos Boozer var með fimmtán stig og tíu fráköst.

Cleveland vann Washington, 105-88, og þar með rimmuna 4-2. LeBron James sýndi mátt sinn og megin í leiknum en hann var með þrefalda tvennu - skoraði 27 stig, tók þrettán fráköst og gaf þrettán stoðsendingar.

Þetta var hörkurimma enda dæmdar í henni þrettán tæknivillur, einum leikmanni var vísað úr leik, einn dæmdur í bann og þannig mætti áfram telja. En á endanum var það LeBron sem gerði gæfumuninn.

Cleveland mætir annað hvort Boston eða Atlanta í næstu umferð. Þetta er í þriðja árið í röð sem Cleveland vinnur Washington í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Í öll þessi skipti hefur Cleveland unnið fjórða leikinn sinn á heimavelli Washington.

Wally Szczerbiak skoraði 26 stig í leiknum og Daniel Gibson 22. Antawn Jamison var stigahæstur hjá Washington með 23 stig og fimmtán fráköst.
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×