Erlent

Stóraukið netráp um síma

Símanotendur fletta meira í Google um símann.
Símanotendur fletta meira í Google um símann.

SAN FRANCISCO (Reuters) Talsmenn vefrisans Google segjast merkja aukna netnotkun gegnum farsíma síðan fyrirtækið tók að bjóða upp á hraðvirkara netráp gegnum ákveðnar tegundir síma og eiga nú von á að netsímaöld fari í hönd. Símar á borð við Blackberry hafa farið sigurför um farsímamarkaðinn og segir Matt Waddell, framleiðslustjóri Google Mobile, að um sé að ræða vatnaskil í sögu netnotkunar um síma sem nú aukist umfram björtustu vonir Google.

Snar þáttur í þessari þróun er talinn vera að notendur greiði eina fyrirframákveðna upphæð fyrir visst sótt gagnamagn í stað þess að greiða fyrir hverja mínútu í notkun eins og áður tíðkaðist. Þá hefur ný tækni við leit í leitarvél Google gegnum farsíma gert notendum kleift að framkvæma netleit á 40% meiri hraða en var sem hefur aukið notkunina til muna. Einnig kváðust talsmenn Google hafa merkt stórauknar flettingar á Google frá farsímum eftir að Apple hleypti hinum nýja iPhone af stokkunum í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×