Körfubolti

Boston í úrslit Austurdeildar

Paul Pierce sleppti sér af fögnuði þegar sigurinn var í höfn. Hann skoraði 41 stig í leiknum.
Paul Pierce sleppti sér af fögnuði þegar sigurinn var í höfn. Hann skoraði 41 stig í leiknum. NordcPhotos/GettyImages

Boston tryggði sér í nótt sæti í úrslitum Austurdeildarinnar í NBA eftir 97-92 sigur á Cleveland í oddaleik liðanna í Boston. Paul Pierce og LeBron James háðu mikið einvígi í leiknum.

Pierce, sem hafði verið frekar rólegur í stigaskorun fram til þessa í einvíginu, var óstöðvandi og skoraði 41 stig fyrir Boston í leiknum. 41 stig Pierce var annað hæsta stigaskor Boston-leikmanns í sjöunda leik í sögu félagsins.

"Við LeBron vorum báðir í stuði í kvöld og vildum ekki hætta. Hvorugum okkar langaði að tapa þessum leik," sagði Pierce um einvígi sitt við James, en þeir spiluðu grimma vörn hvor á annan.

"Leikaðferð okkar í kvöld var eiginlega sú að koma boltanum á Pierce og passa svo að vera ekki fyrir honum," sagði Kevin Garnett, leikmaður Boston.

LeBron James hjá Cleveland bætti um betur og skoraði 45 stig, en fékk litla hjálp frá félögum sínum eins og svo oft áður í einvíginu. 45 stig James eru það fjórða mesta sem leikmaður hefur skorað í leik sjö í sögu úrslitakeppninnar.

Tölfræði leiksins

Boston hafði forystuna frá fyrstu mínútu, en Cleveland var þó aldrei langt undan og náði að minnka muninn niður í eitt stig skömmu fyrir leikslok.

Heimamenn fengu hjálp úr óvæntri átt í lokin þar sem hinn gamalreyndi P.J. Brown skoraði 4 af 10 stigum sínum á gríðarlega mikilvægum augnablikum. Boston kláraði svo leikinn með góðri vítanýtingu þegar leikmenn Cleveland brutu til að freista þess að jafna leikinn.

Þetta er annað einvígið í röð sem Boston klárar 4-3 og tryggir sér sigur í oddaleik á heimavelli.

Andstæðingur liðsins í úrslitum Austurdeildarinnar verður Detroit Pistons, sem hefur fengið að hvíla sig í nokkra daga eftir að hafa slegið Orlando út 4-1.

Fyrsti leikurinn í einvígi Boston og Detroit verður á þriðjudagskvöldið.

NBA Bloggið á Vísi

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×