Körfubolti

Garnett vann sigur í 1000. leiknum

Kevin Garnett varð í nótt yngsti leikmaðurinn til að spila sinn 1000. leik í NBA.
Kevin Garnett varð í nótt yngsti leikmaðurinn til að spila sinn 1000. leik í NBA. NordicPhotos/GettyImages

Sjö leikir fóru fram í NBA deildinni í nótt. Kevin Garnett spilaði sinn 1000. leik á ferlinum þegar hann fór fyrir liði Boston í 96-80 sigri liðsins á Chicago.

Garnett skoraði 18 stig og hirti 10 fráköst fyrir Boston en nýliðinn Derrick Rose skoraði 18 fyrir Chicago. Boston hefur unnið tvo fyrstu leiki sína í deildinni.

Garnett var 32 ára og 165 daga gamall þegar hann náði áfanganum, en eftir þrjá daga verða liðin 13 ár síðan hann spilaði sinn fyrsta leik í deildinni. Það var Shawn Kemp sem átti eldra metið en hann var 33 ára og 24 daga þegar hann spilaði sinn 1000. leik með Orlando árið 2002.

Philadelphia rótburstaði New York á heimavelli sínum 116-87. Elton Brand skoraði 24 stig og hirti 14 fráköst fyrir heimamenn en Jamal Crawford skoraði 14 fyrir New York.

Toronto vann nauman sigur á Golden State eftir framlengdan leik 112-108 eftir að staðan var jöfn 96-96 í lok venjulegs leiktíma. Chris Bosh var góður í liði Toronto á lokasprettinum og hann skoraði 31 stig og hirti 9 fráköst. Al Harrington skoraði 23 stig fyrir Golden State.

Miami burstaði Sacramento á heimavelli 103-77. Dwyane Wade skoraði 20 stig og gaf 8 stoðsendingar fyrir Miami og nýliðinn Michael Beasley skoraði 17 stig og hirti 9 fráköst. Quincy Douby og John Salmons skoruðu 14 hvor fyrir Sacramento.

Memphis vann góðan sigur á Orlando 86-84 þar sem Rudy Gay tryggði Memphis sigurinn um leið og leiktíminn rann út. Gay var langatkvæðamestur í liði heimamanna með 29 stig en Rashard Lewis skoraði 23 stig fyrir Orlando og Hedo Turkoklu skoraði 18 stig, hirti 9 fráköst og gaf 7 stoðsendingar.

Allen Iverson var maðurinn á bak við sigur Denver á LA Clippers í framlengdum leik 113-103. Iverson skoraði 25 stig fyrir Denver og Nene var með 22 stig og 11 fráköst en Al Thornton skoraði 30 stig og hirti 11 fráköst fyrir Clippers.

Loks vann Portland nauman heimasigur á San Antonio 100-99. Brandon Roy skoraði 26 stig fyrir Portland en Tim Duncan var með 27 stig og 10 fráköst hjá gestunum.

Staðan í deildinni

 

 

 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×