Körfubolti

NBA: Enn tapar Boston á útivelli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
LeBron James bauð upp á troðslu yfir Kevin Garnett, varnarmanni ársins í NBA-deildinni.
LeBron James bauð upp á troðslu yfir Kevin Garnett, varnarmanni ársins í NBA-deildinni. Nordic Photos / Getty Images

Cleveland náði í nótt að jafna metin í undanúrslitarimmu liðsins við Boston í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í Austurdeildinni.

Cleveland vann ellefu stiga sigur, 88-77, þar sem að heimamenn náðu að halda Boston í tólf stigum í fjórða leikhluta. LeBron James hefur ekki náð að hitta vel í rimmunni en hann gerði allt annað fyrir Cleveland í leiknum.

Hann skoraði 21 stig og hitti alls úr sjö af 20 skotum sínum utan af velli. En hann var með þrettán stoðsendingar og á síðustu mínútum leiksins átti hann fjórar stoðsendingar, hitti úr þriggja stiga skoti og náði að troða yfir Kevin Garnett, varnarmann ársins í NBA-deildinni, við gríðarlegan fögnuð áhorfenda.

Fram að fjórða leikhluta var leikurinn hnífjafn en staðan var 45-43 heimamönnum í vil í hálfleik.

Boston náði bestum árangri allra liða í NBA-deildinni á útivelli í deildinni en hafa nú tapað öllum fimm útileikjum sínum í úrslitakeppninni.

Nú er staðan 2-2 í rimmunni og verður næsti leikur í heimavelli Boston annað kvöld og sjötti leikurinn í Cleveland á föstudagskvöldið.

Kevin Garnett, Ray Allen og Rajon Rondo voru allir með fimmtán stig í leiknum og Paul Pierce var með þrettán stig.

James var stigahæstur hjá Cleveland en þeir Wally Szczerbiak og Daniel Gibson voru með fjórtán stig hver.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×