Körfubolti

KR í undanúrslitin eftir sigur á Blikum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jakob Sigurðarson skoraði 20 stig fyrir KR í kvöld.
Jakob Sigurðarson skoraði 20 stig fyrir KR í kvöld. Mynd/Vilhelm

KR tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitum úrslitakeppni Iceland Express deild karla eftir sigur á Breiðabliki á útivelli í kvöld, 75-102.

Blikar mættu grimmir til leiks og voru með átta stiga forystu eftir fyrsta leikhluta. En þeir skoruðu ekki nema þrjú stig í öðrum leikhluta á meðan að KR-ingar komu sér í örugga forystu sem þeir létu aldrei af hendi.

Leiknum var lýst beint á Vísi og má lesa lýsinguna hér fyrir neðan.



Leik lokið: Breiðablik - KR 75-102


Það er óhætt að segja að Blikar hafi fallið úr leik með sæmd eftir hetjulega baráttu í upphafi leiks. En þegar að KR komst almennilega í gang var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi lenda. KR-ingar keyrðu þetta af krafti fram á lokasekúndu leiksins og sigurinn því eins stór og raun bar vitni.

Nemanja Sovic fór mikinn í liði Breiðabliks og skoraði 34 stig og tók tólf fráköst. Emil Jóhannsson kom næstur með ellefu stig og Rúnar Ingi Erlingsson skoraði tíu.

Hjá KR var Jakob Sigurðarson stigahæstur með 20 stig. Fannar Ólafsson skoraði fjórtán og Jón Arnór Stefánsson þrettán.



36. mínúta: Breiðablik - KR 67-89


Það vantar ekkert upp á baráttuna hjá Blikum en KR-vélin mallar áfram og sér til þess að forskot liðsins verði aldrei í hættu.

3. leikhluta lokið: Breiðablik - KR 56-74

KR-ingar hafa örugga forystu fyrir síðasta leikhlutann. Þeir hafa slakað á þeirri miklu pressuvörn sem KR hefur beitt lengst af en Blikar eru þó hvergi nærri því að ógna öruggri forystu gestanna.

26. mínúta: Breiðablik - KR 44-65

Blikar hafa nú byrjað að skora á nýjan leik eftir að hafa skorað sjö stig á um þrettán mínútna leikkafla. KR-ingar gefa þó ekkert eftir.

22. mínúta: Breiðablik - KR 35-57

KR-ingar halda uppteknum hætti í upphafi síðari hálfleiks og virðast fá færi ætla að gefa á sér.

Hálfleikur: Breiðablik - KR 35-53

Afar erfiður leikhluti hjá Blikum. Liðið skoraði aðeins fimm stig gegn 31 frá KR. KR-ingar settu þó aðeins niður einn þrist í hálfleiknum en hann kom á lokamínútunni en hann setti Skarphéðinn Ingason niður.

KR-ingar eru einfaldlega að spila glimrandi sóknarleik og Blikum tókst að sama skapi engin svör að finna við pressuvörn gestanna.

Nemanja Sovic hefur skorað sextán stig fyrir Breiðablik og þeir Emil Jóhannsson og Rúnar Ingi Erlingsson sex hvor.

Hjá KR eru Helgi Már Magnússon og Fannar Ólafsson stigahæstir með tíu stig hvor. Jón Arnór Stefánsson er með átta stig.

16. mínúta: Breiðablik - KR 33-42

Blikum gengur illa með pressuvörn KR-inga og það liðu tæpar sex mínútur af öðrum leikhluta áður en fyrstu stigin utan af velli komu hjá Blikum. Staðan 20-3 fyrir KR í öðrum leikhluta.

14. mínúta: Breiðablik - KR 31-34

KR-ingar ná yfirhöndinni í leiknum en Blikar skora sitt fyrsta stig eftir rúmar þrjár mínútur í öðrum leikhluta. Blikar taka leikhlé en KR er með 12-1 forystu í leikhlutanum.

13. mínúta: Breiðablik - KR 30-28

Blikar byrja illa í öðrum leikhluta. Hafa ekki enn náð að skora og meira að segja misnotað tvö vítaköst. KR-ingar þó enn að gera mistök í sínum sóknarleik, þrátt fyrir allt.

1. leikhluta lokið: Breiðablik - KR 30-22

Ótrúlegar fréttir héðan úr Smáranum. Blikar með átta stiga forystu og kláruðu leikhlutann á 7-2 spretti. Þar af var Emil Jóhannsson með fimm stig, meðal annars einn þrist. Sóknarleikur KR hefur batnað með tilkomu Jóns Arnórs en þeir þurfa að endurskoða varnarleikinn.

8. mínúta: Breiðablik - KR 21-16

Jón Arnór kominn inn og byrjar á no-look sendingu á Jason Dourisseau sem minnkar muninn í fimm stig. Blikar neyðast til að taka erfið skot og þristarnir eru ekki að detta eins og í upphafi leiksins.

7. mínúta: Breiðablik - KR 19-12

Þetta er afar hraður leikur. KR-ingar verjast afar framarlega og Blikum gengur misvel að spila sig í gegnum það. Skotin eru að detta illa hjá KR-ingum. Fannar Ólafsson kemur inn í fyrsta sinn í leiknum en Jón Arnór Stefánsson er enn á bekknum.

4. mínúta: Breiðablik - KR 15-6

KR klórar í bakkann en Blikar gera sér lítið fyrir og koma með tvo þrista til viðbótar! Fyrst Rúnar Ingi Erlingsson og svo Sovic aftur. Fimm þristar á fyrstu fjórum mínútunum hjá Blikum og KR-ingar taka leikhlé.

3. mínúta: Breiðablik - KR 9-4

KR kemst í 4-0 en Blikar svara með þremur þristum í röð. Fyrst Kristján Sigurðsson, svo Nemanja Sovic og Hjalti Vilhjálmsson. Áhorfendur taka gríðarlega vel við sér og heimamenn eru vel studdir í Smáranum.

1. mínúta: Breiðablik - KR 0-2

Leikurinn er hafinn hér í Smáranum og vinna KR-ingar uppkastið. Baldur Ólafsson fær tvö skotfæri en nýtir hvorugt. Hinum megin klikkar Nemanja Sovic í fyrstu sókn Blika en Darri Hilmarsson setur niður fyrstu körfu leiksins.

19.07 - Velkomin til leiks

Vísir heilsar hér úr Smáranum þar sem leikur Breiðabliks og KR fer senn að hefjast. Deildarmeistarar KR geta með sigri í kvöld tryggt sér sæti í undanúrslitum úrslitakeppninnar en liðið vann stórsigur á Blikum í fyrsta leik liðanna, 123-75.

Svo virðist sem að Jón Arnór Stefánsson verði með KR-ingum í kvöld en hann var ekki með í fyrsta leiknum eftir að hann meiddist á æfingu. Ellert Arnarson dettur úr hópnum.










































Fleiri fréttir

Sjá meira


×