Sport

59 milljónum úthlutað úr ferðasjóði - sótt um 330 milljónir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það kostar sitt að vera með lið út á landi.
Það kostar sitt að vera með lið út á landi. Mynd/Auðunn

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands úthlutaði í dag í annað sinn styrkjum úr Ferðasjóði íþróttafélaga vegna keppnisferða sem farnar voru á skilgreind mót á árinu 2008. 

Ferðasjóður íþróttafélaga er tilkominn með framlagi ríkisins til þriggja ára, eða á árunum 2007-2009, og var ÍSÍ falið að úthluta úr sjóðnum.

Það var sótt um 320 milljónir úr ferðasjóðnum og úthlutaði Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands 59 milljónum til 123 íþrótta- og ungmennafélaga og deilda þeirra eða rétt rúmlega 18 prósentum. Úthlutunin dreifðist á 23 héraðssambönd og íþróttabandalög.

Í fréttatilkynningu frá ÍSÍ segir: "Ferðasjóðnum er ætlað að jafna aðstöðumun og efla íþrótta- og forvarnarstarf, í samræmi við tillögur nefndar sem menntamálaráðuneytið fól á sínum tíma að fjalla um ferðakostnað íþróttafélaga. Með tilkomu Ferðasjóðs íþróttafélaga voru mörkuð tímamót í ferðakostnaðarmálum íþróttahreyfingarinnar."

Íþróttabandalag Akureyrar fékk mest úr sjóðnum eða 13.833.099 krónur, Íþróttabandalag Vestmannaeyja kom næst með 8.453.197 krónur og Íþróttabandalag Reykjavíkur fékk 8.290.651 krónur. Þá fékk Ungmenna og íþróttasambands Austurlands 6.138.051 krónur úr ferðasjóðnum.

Knattspyrnan fékk langmest af íþróttasamböndunum eða 31.309.049 krónur eða rúmlega 20 milljónum meira en handboltinn sem fékk 11.286.645 krónur. Körfuboltinn er síðan í þriðja sæti en hann fékk 7.528.896 krónur úr ferðasjóðnum að þessu sinni.

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×