Sport

Favre kemur ekki aftur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Favre í leik með Green Bay.
Favre í leik með Green Bay. Nordic Photos/Getty Images

Bandarískir fjölmiðlar hafa verið uppfullir af fréttum síðustu daga um mögulega endurkomu leikstjórnandans Brett Favre í NFL-deildina.

Favre lagði skóna á hilluna eftir frábært tímabil með Green Bay. Hann uppgötvaði skömmu síðar að hann gæti ekki hætt og gerði í kjölfarið samning við NY Jets.

Þar gekk frábærlega framan af en hrun varð í leik liðsins sem og í leik Favre undir lok tímabilsins og lítil reisn yfir Favre er hann yfirgaf sviðið. Hann sagðist vera hættur á ný skömmu síðar en lét lítið fyrir sér fara.

Á dögunum spurðist það síðan út að þjálfari Minnesota Vikings vildi fá hann aftur í boltann en Favre er 39 ára gamall.

Allir aðilar vörðust frétta af málinu en talið var að þjálfari Vikings ætlaði að heimsækja Favre og tala hann inn á að byrja aftur. Ekkert hefur orðið af því.

Í kvöld sögðust fjölmiðlar síðan hafa heimildir fyrir því að Favre hafi hringt í þjálfara Vikings og tjáð honum að hann myndi ekki snúa aftur í boltann.

Favre vildi á sínum tíma fara til Vikings en Green Bay stöðvaði þau skipti. Nú eru engin ljón á veginum ef hann vill fara.

Með Vikings ætti Favre smá möguleika á að vinna Super Bowl í hinsta skipti en Vikings hefur á að skipa mjög öflugu liði. Talsvert öflugra en Jets.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×