Körfubolti

Langt síðan Snæfell vann - þegar tímabilið er undir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Magni Hafsteinsson leikmaður Snæfells.
Magni Hafsteinsson leikmaður Snæfells. Mynd/Stefán

Snæfell og Stjarnan mætast í kvöld í oddaleik í átta liða úrslitum Iceland Express deildar karla í körfubolta. Það lið sem vinnur leikinn sem fram fer í Stykkishólmi er komið í undanúrslit Íslandsmótsins.

Snæfellingar mæta Grindavík komist þeir áfram í undanúrslitin en KR-ingar verða mótherjar Stjörnunnar vinni þeir leikinn á eftir sem hefst klukkan 19.15 og verður í beinni á Stöð 2 Sport 2.

Snæfellingar eru eins og Stjörnumenn með allt undir. Tap þýðir að liðið er komið í sumarfrí. Það er orðinn langur tími síðan Snæfellsliðið hefur klárað leik í úrslitakeppni þar sem tap þýðir að liðið sé komið í sumarfrí.

Snæfellingar unnu síðast leik þegar tímabilið var undir í oddaleik í átta liða úrslitunum á móti KR 2005.

Frá þeim tíma hefur Snæfell tapað fjórum slíkum leikjum í röð: Í fjórða leik á móti Keflavík í lokaúrslitum 2005, í oddaleik á móti KR í 8 liða úrslitum 2006, í oddaleik á móti KR í undanúrslitum 2007 og svo í þriðja leik á móti Keflavík í úrslitum í fyrra.

Það er þó Snæfelli í hag að nú fá liðið þennan leik á heimavelli en síðustu þrír leikir í þessari stöðu hafa verið útileikir.

Eini leikmaður Snæfells sem hefur verið með í öllum þessum fjórum "upp á líf eða dauða" leikjum er Magni Hafsteinsson. Magni hefur skorað 9,8 stig og tekið 4,3 fráköst að meðaltali á 24,8 mínútum í þessum fjórum leikjum.

Þjálfarar Snæfellsliðsins í dag, Hlynur Bæringsson og Sigurður Þorvaldsson, hafa ekki hitt vel í þeim þremur leikjum sem þeir hafa spilað í úrslitakeppninni undanfarin fjögur ár þar sem tímabilið hefur verið undir. Samanlagt hafa aðeins 25 af 74 skotum þeirra ratað rétta lið sem gerir 33,8 prósent skotnýtingu.

Hlynur Bæringsson hefur skorað 15,0 stig og tekið 11,7 fráköst að meðaltali í þremur þessara leikja en hefur aðeins nýtt 33,3 prósent skota sinna.

Sigurður Þorvaldsson hefur skorað 10,3 stig og tekið 6,0 fráköst að meðaltali í þremur þessara leikja en hefur eins og Hlynur hitt illa eða bara úr 34,4 prósent skot sinna.



Síðustu fjórir leikir Snæfells í úrslitakeppni þegar tímabilið er undir:

Lokaúrslit 2008

Keflavík-Snæfell 98-74 (Keflavík vann 3-0)

Undanúrslit 2007

KR-Snæfell 76-74 (68-68) (KR vann 3-2)

8 liða úrslit 2006

KR-Snæfell 67-64 (KR vann 2-1)

Lokaúrslit 2005

Snæfell-Keflavík 88-98 (Keflavík vann 3-1)

 

 










Fleiri fréttir

Sjá meira


×