Fjórir leikir fara fram í N1 deild karla í kvöld og stórleikur kvöldsins er á Akureyri þar sem heimamenn taka á móti toppliði Valsmanna. Akureyringar hafa unnið fjóra leiki í röð og geta komist upp að hlið Vals á toppnum með sigri.
Akureyrarliðið byrjaði ekki vel og var án sigurs í fyrstu þremur leikjum sínum en hefur síðan unnið Gróttu (22-21), Stjörnuna (25-24), Fram (27-18) og HK (27-26).
Valsmenn gerðu 20-20 jafntefli við Hauka í síðasta leik þar sem þeir fengu á sig jöfnunarmark á lokasekúndum leiksins. Valsmenn unnu 23-19 sigur á Akureyri í fyrri leik liðanna í Vodafone-höllinni.
Þrír aðrir leikir fara fram í deildinni í kvöld þegar fram fer heil umferð. Á Seltjarnarnesi mætast Grótta og Fram, í Kaplakrika mætast FH og HK og að Ásvöllum mætast Haukar og Stjarnan.
Leikurinn á Akureyri hefst klukkan 19.00 en allir hinir leikirnir hefjast síðan hálftíma síðar eða klukkan 19.30.