Fótbolti

Mikilvægt stig hjá Lilleström

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stefán Logi Magnússon.
Stefán Logi Magnússon. Mynd/Arnþór
Lilleström gerði í dag 2-2 jafntefli við Sandefjord á útivelli í norsku úrvalsdeildinni í dag.

Lilleström komst reyndar í 2-1 forystu í leiknum en Sandefjord jafnaði metin á 85. mínútu leiksins.

Stefán Logi Magnússon lék allan leikinn í marki Lilleström og Björn Bergmann Sigurðarson kom inn á sem varamaður á 81. mínútu.

Þá gerðu Viking og nýkrýndir meistarar Rosenborg markalaust jafntefli. Indriði Sigurðsson lék allan leikinn með Viking en Birkir Bjarnason var tekinn af velli á 56. mínútu.

Brann tapaði á heimavelli fyrir Vålerenga, 2-1. Kristján Örn Sigurðsson og Birkir Már Sævarsson voru í byrjunarliði Brann og Gylfi Einarsson kom inn á sem varamaður á 61. mínútu. Ólafur Örn Bjarnason var á bekknum hjá Brann.

Brann er í fjórða sæti deildarinnar, Viking því tíunda og Lilleström í því tólfta með 34 stig, sjö stigum frá fallsæti.

Það var einnig leikið í dönsku úrvalsdeildinni í dag. Bröndby og Midtjylland gerðu 1-1 jafntefli. Stefán Gíslason kom inn á sem varamaður í liði Bröndby á 67. mínútu.

Silkeborg og Esbjerg gerðu 2-2 jafntefli. Gunnar Heiðar Þorvaldsson var á bekknum hjá Esbjerg.

Esbjerg er í þriðja sæti deildarinnar með 24 stig, þremur stigum á eftir toppliði OB. Bröndby er í fjórða sæti með 21 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×