Körfubolti

Friðrik: Ég var mjög smeykur

Nick Bradford er á batavegi eftir slæma byltu
Nick Bradford er á batavegi eftir slæma byltu

Óvíst er hvort framherjinn Nick Bradford geti leikið með Grindvíkingum í undanúrslitunum í Iceland Express deildinni. Bradford datt illa og rotaðist þegar hann var að koma frá lækni.

Bradford var hjá lækni þar sem hann fékk sprautu í hnéð en þegar hann var á leið út frá lækninum, er talið að blóðþrýstingur hans hafi hríðfallið með þeim afleiðingum að hann féll í yfirlið og skall í gólfið.

Friðrik Ragnarsson þjálfari Grindavíkur var með Bradford þegar atvikið átti sér stað og segir að sér hafi brugðið mikið.

"Hann bara small á andlitinu steinrotaður. Það virðist hafa snarliðið yfir hann og hann skall bara með andlitið á undan sér á flísarnar. Ég var með hann í fanginu með opin augun og hann fékk krampakast í kjölfarið. Ég vissi ekki hvort maðurinn væri að fá hjartaáfall eða hvað. Hann fékk stóran skurð á hökuna og það blæddi úr eyrunum á honum, svo ég var mjög smeykur," sagði Friðrik.

Hann segir að líðan Bradford sé góð eftir atvikum, en hann fór í sneiðmyndatöku eftir fallið.

"Hann var á spítalanum yfir nótt en hann er merkilega brattur þrátt fyrir þetta. Við vitum ekki meira fyrrr en á morgun en ég er að gera mér vonir um að hann spili með okkur á mánudaginn," sagði Friðrik.

Ekki er komið í ljós hvort Bradford er kjálkabrotinn, en hann braut nokkrar tennur í fallinu.

"Maður þakkar bara fyrir að þetta gerðist inni en ekki úti á gangstétt eða eitthvað þannig. Það má eiginlega segja að þetta hafi farið betur en á horfðist," sagði Friðrik.

Bradford er algjör lykilmaður í liði Grindavíkur og það yrði því væntanlega mikil blóðtaka fyrir liðið ef hann myndi missa af undanúrslitaeinvíginu, þar sem Grindavík mætir annað hvort Keflavík eða Snæfelli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×