Það verður fimm manna dómarasveit sem mætir til leiks þegar Evrópudeildin fer af stað í kvöld. Þetta verður í fyrsta sinn sem sérstakir marklínu-dómarar verða á alvöru leikjum á vegum FIFA en gerðar hafa verið tilraunir með fimm dómara á mótum yngri landsliða.
Þessir tveir aukadómarar, sem hafa aðsetur bak við mörkin, munu fylgjast með öllu sem gerist inn í vítateignum þeirra megin, hvort sem það er að vakta marklínuna eða fylgjast með barátunni inn í teig í horn- og aukaspyrnum.
Menn hafa tekið misjafnlega vel í þessa nýjung hjá FIFA og flestir gagnrýnendur hafa viljað láta tölvu úrskurða um það hvort boltinn fari inn fyrir línuna eða ekki. Það verður síðan að koma í ljós hversu mikið marklínu-dómararnir munu taka þátt í ákvörðunum sem tengjast því sem gerist inn í vítateignum.
Það mun reyndar ekki koma í ljós á meðan leikjunum stendur því marklínu-dómarar eru aðeins hugsaðir sem ráðgjafar fyrir aðaldómara leiksins og láta hann aðeins vita í gegnum talstöðvarkerfið. Þeir munu því ekki veifa eða flauta ef þeir sjá eitthvað athugavert. Það er síðan alltaf undir aðaldómaranum komið hversu mikið mark hann tekur á nýju ráðgjöfum sínum.