Þjóðþrifamálin Bergsteinn Sigurðsson skrifar 15. maí 2009 03:00 Alþingismenn hafa nú verið leystir undan því oki að þurfa að mæta með bindi í vinnuna. Þetta leggst misvel í mannskapinn. Meðan hatursmenn slifsanna varpa öndinni léttar, óttast hinir íhaldsamari að nú fari Þráinn Bertelsson og Þór Saari að mæta í kvartbuxum og havaískyrtum í vinnuna og virðingunni fyrir löggjafarsamkundunni verði endanlega kastað fyrir róða. Sá ótti er kannski ekki ástæðulaus, því miðað við vinnubrögðin sem við urðum vitni að á nýafstöðnu vorþingi má mögulega til sanns vegar færa að snyrtilegur klæðnaður sé eitt af því fáa sem ljær Alþingi snefil af virðingarbrag núorðið. Sjálfsagt þurfum við ekki að hafa áhyggjur af því að senn fari þingmenn að mæta eins og umrenningar til fara en engu að síður er mikilvægt að komast að málamiðlun í þessum efnum, ná þverpólitískri sátt eins og sagt er. Hvað um að láta til dæmis útbúa sérstaka alþingismannabúninga? Það hefði nokkra ótvíræða kosti í för með sér. Í fyrsta lagi væru alþingismannabúningar til þess fallnir að lækka fatakostnað alþingismanna. Í öðru lagi gætu þeir dregið úr einelti á vinnustað, eins og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir benti á í ræðu á Alþingi: „Ég veit ekki betur en að hér í þingsal eigi allir herramenn að vera með bindi en sumir segja eigi að síður að það sé nokkuð mikið einelti í því." Það eru eflaust þung skref fyrir óbreyttan þingmann á þingfararkaupi að mæta með Dressmann-bindi um hálsinn vitandi af ráðherranum með silkislifsi frá Sævari Karli. Ég sé alþingismenn til dæmis fyrir mér í Henson-jogginggöllum og flíspeysum í stíl. Flokkarnir fengju vitaskuld allir búning í sínum lit: Sjálfstæðisflokkur bláan, Framsókn grænan, VG rauðan, Samfylking gulan og Borgarahreyfing appelsínugulan. Nafn hvers þingmanns yrði saumað á brjóstið og ráðherrar fengju buff að auki. Þetta yrði eflaust til þess fallið að efla innlenda framleiðslu. Össur þyrfti ekki að mæta svona klæddur á nema einn eða tvo fundi hjá Sameinuðu þjóðunum eða NATO og Henson hefði ekki undan við afgreiða pantanir að utan. Ég held að þingmenn myndu taka vel í þessa breytingu, guðslifandi fegnir að þurfa ekki að mæta í fleiri froðuviðtöl um hvað sé í fataskápnum og geta einbeitt sér að stjórnmálum. Enda eru stífpressuð jakkaföt og dragtir beinlínis hamlandi þegar maður ætlar að vera með frammíköll, málþóf og fjas um hvaða herbergi flokkurinn manns eigi að vera í. Þá hæfir þá Henson-galli, flíspeysa og buff betur tilefninu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Bergsteinn Sigurðsson Mest lesið Hafa íslenskir neytendur sama rétt og evrópskir? Ásthildur Lóa Þórsdóttir,Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Skuldin við úthverfin Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir Skoðun Til þeirra sem fagna Doktornum! Kristján Freyr Halldórsson Skoðun Einelti er dauðans alvara Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir Skoðun Réttlæti hins sterka. Gildra dómarans Jörgen Ingimar Hansson Skoðun Málgögn og gervigreind Steinþór Steingrímsson,Einar Freyr Sigurðsson,Helga Hilmisdóttir Skoðun Það sem Njáll sagði ykkur ekki Inga Lind Karlsdóttir Skoðun Hringekja verðtryggingar og hárra vaxta Benedikt Gíslason Skoðun Engin eftirspurn eftir Viðreisnar- og Samfylkingarmódelinu Andri Steinn Hilmarsson Skoðun Íslenska þjóð, þú ert núna að gleyma Sighvatur Björgvinsson Skoðun
Alþingismenn hafa nú verið leystir undan því oki að þurfa að mæta með bindi í vinnuna. Þetta leggst misvel í mannskapinn. Meðan hatursmenn slifsanna varpa öndinni léttar, óttast hinir íhaldsamari að nú fari Þráinn Bertelsson og Þór Saari að mæta í kvartbuxum og havaískyrtum í vinnuna og virðingunni fyrir löggjafarsamkundunni verði endanlega kastað fyrir róða. Sá ótti er kannski ekki ástæðulaus, því miðað við vinnubrögðin sem við urðum vitni að á nýafstöðnu vorþingi má mögulega til sanns vegar færa að snyrtilegur klæðnaður sé eitt af því fáa sem ljær Alþingi snefil af virðingarbrag núorðið. Sjálfsagt þurfum við ekki að hafa áhyggjur af því að senn fari þingmenn að mæta eins og umrenningar til fara en engu að síður er mikilvægt að komast að málamiðlun í þessum efnum, ná þverpólitískri sátt eins og sagt er. Hvað um að láta til dæmis útbúa sérstaka alþingismannabúninga? Það hefði nokkra ótvíræða kosti í för með sér. Í fyrsta lagi væru alþingismannabúningar til þess fallnir að lækka fatakostnað alþingismanna. Í öðru lagi gætu þeir dregið úr einelti á vinnustað, eins og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir benti á í ræðu á Alþingi: „Ég veit ekki betur en að hér í þingsal eigi allir herramenn að vera með bindi en sumir segja eigi að síður að það sé nokkuð mikið einelti í því." Það eru eflaust þung skref fyrir óbreyttan þingmann á þingfararkaupi að mæta með Dressmann-bindi um hálsinn vitandi af ráðherranum með silkislifsi frá Sævari Karli. Ég sé alþingismenn til dæmis fyrir mér í Henson-jogginggöllum og flíspeysum í stíl. Flokkarnir fengju vitaskuld allir búning í sínum lit: Sjálfstæðisflokkur bláan, Framsókn grænan, VG rauðan, Samfylking gulan og Borgarahreyfing appelsínugulan. Nafn hvers þingmanns yrði saumað á brjóstið og ráðherrar fengju buff að auki. Þetta yrði eflaust til þess fallið að efla innlenda framleiðslu. Össur þyrfti ekki að mæta svona klæddur á nema einn eða tvo fundi hjá Sameinuðu þjóðunum eða NATO og Henson hefði ekki undan við afgreiða pantanir að utan. Ég held að þingmenn myndu taka vel í þessa breytingu, guðslifandi fegnir að þurfa ekki að mæta í fleiri froðuviðtöl um hvað sé í fataskápnum og geta einbeitt sér að stjórnmálum. Enda eru stífpressuð jakkaföt og dragtir beinlínis hamlandi þegar maður ætlar að vera með frammíköll, málþóf og fjas um hvaða herbergi flokkurinn manns eigi að vera í. Þá hæfir þá Henson-galli, flíspeysa og buff betur tilefninu.
Hafa íslenskir neytendur sama rétt og evrópskir? Ásthildur Lóa Þórsdóttir,Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun
Hafa íslenskir neytendur sama rétt og evrópskir? Ásthildur Lóa Þórsdóttir,Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun