Fótbolti

Stefán Logi hélt hreinu í fyrsta leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stefán Logi þótti eiga stórleik í markinu hjá Lilleström.
Stefán Logi þótti eiga stórleik í markinu hjá Lilleström. Mynd/Arnþór

Stefán Logi Magnússon átti góðan leik er Lilleström vann 1-0 útisigur á Vålerenga í norsku úrvalsdeildinni í dag.

Þetta var fyrsti leikur Stefáns Loga með félaginu en hann er þar á lánssamningi frá KR. Hann þótti á vefmiðilinum Nettavisen vera maður leiksins en hann fékk átta í einkunn. Enginn fékk sjö en nokkrir sex.

Sigurmarkið skoraði Frode Kippe á 88. mínútu leiksins. Þetta var aðeins fimmti sigur Lilleström á leiktíðinni en liðið er nú í ellefta sæti deildarinnar. Liðið er þó aðeins þremur stigum frá fallsæti og sigurinn því afar mikilvægur.

Stefán Logi varði til að mynda frá sóknarmanni Vålerenga strax á upphafsmínútunum þegar hann var sloppinn inn fyrir vörn Lilleström.

„Hann bjargaði nokkrum sinnum vel í fyrri hálfleik og það var frábært að sjá hann spila í dag. Maður veit aldrei hvernig þetta getur farið þegar um leikmenn sem maður þekkir lítið er að ræða. En Stefán er stórefnilegur leikmaður,“ sagði Henning Berg, þjálfari Lilleström, eftir leikinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×