Níu manna þingmannanefnd sem ætlað er að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis verður væntanlega skipuð fyrir áramót. Þingmenn vilja skipa í nefndina sem fyrst til að koma í veg fyrir frekari fyrningu brota sem snerta ráðherraábyrgð.
Skýrsla rannsóknarnefndar alþingis verður birt í lok janúarmánaðar en upphaflega stóð til að birta skýrsluna í nóvember.
Samkvæmt frumvarpi sem nú liggur fyrir á Alþingi stendur til að kjósa níu manna þingmannanefnd sem mun hafa það hlutverk að fjalla um skýrslu rannsóknanefndarinnar. Nefndinni er meðal annars ætlað skoða möguleg brot á lögum um ráðherraábyrgð.
Verði það niðurstaða nefndarinnar að lög hafi verið brotin mun Alþingi með samþykki þingsályktunartillögu skipa sérstakan saksóknara til að reka það mál fyrir hönd ríkisins.
Brot á lögum um ráðherraábyrgð fyrnast á þremur árum en fyrning rofnar við upphaf rannsóknar. Allsherjarnefnd Alþingis skoðaði það sérstaklega í morgun hvort með skipan þingmannanefndar megi líta svo á að formleg rannsókn sé hafin og þar með koma í veg fyrir frekari fyrningu.
Verði skipað í nefndina 30. desember næstkomandi svo dæmi sé tekið fyrnast öll brot sem framin voru fyrir 30. desember 2006.
Því vilja menn skoða sérstaklega hvort ekki sé rétt að skipa í nefndina sem fyrst til að koma í veg fyrir frekari fyrningu.
KR
Njarðvík