Körfubolti

Tveir toppbaráttuleikir í körfunni í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það verður sérstakt að sjá Sigurð Ingimundarson stjórna Njarðvík á móti Keflavík í kvöld.
Það verður sérstakt að sjá Sigurð Ingimundarson stjórna Njarðvík á móti Keflavík í kvöld. Mynd/Vilhelm

Það verða tveir toppbaráttuleikir í Iceland Express deild karla í kvöld þegar tvö efstu liðin og erkifjendurnir í Njarðvík og Keflavík mætast í Ljónagryfjunni í Njarðvík á sama tíma og Íslandsmeistarar KR taka á móti bikarmeisturum Stjörnunnar í DHL-höllinni.

Njarðvík og Keflavík eru efst og jöfn í deildinni með 7 sigra og eitt tap í fyrstu átta umferðunum og því er bæði toppsætið og stoltið í boði í kvöld. Þetta er líka fyrsti leikurinn sem Sigurður Ingimundarson stjórnar Njarðvíkurliðinu í á móti Keflavík sem verður söguleg stund fyrir marga Keflvíkinga.

Njarðvíkingar byrjuðu mótið best og unnu sjö fyrstu leiki sína en Keflavík er heitasta lið deildarinnar eftir að hafa unnið sex síðustu leiki sína.

KR-ingar hafa einnig unnið 7 af fyrstu 8 leikjum sínum eins og Njarðvík og Keflavík og þeir taka á móti Stjörnumönnum sem eru í 4. sætinu með 6 sigra og 2 töp. KR-ingar eiga harma að hefna á móti Stjörnunni sem er búin að taka tvo titla af þeim á þessu ári. Stjarnan vann KR í DHL-Höllinni í meistarakeppninni í haust auk þess að vinna bikarúrslitaleik liðanna á síðasta tímabili.

Þriðji leikur kvöldsins er síðan mjög mikilvægur leikur í neðri hlutanum þar sem Hamarsmenn taka á móti Breiðabliki í Hveragerði. Breiðablik er komið með tvo nýja erlenda leikmenn og það verður því fróðlegt að sjá hversu miklu þeir koma til með að breyta hjá liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×