Körfubolti

Ekkert verra en að tapa fyrir Keflavík

Friðrik Stefánsson
Friðrik Stefánsson

"Þetta er verst í heimi," sagði Friðrik Stefánsson, fyrirliði Njarðvíkur í samtali við Vísi í kvöld.

"Það er ekkert verra en að tapa 2-0 á móti Keflavík," sagði Friðrik eftir að lið hans féll úr leik í fyrstu umferð í úrslitakeppni Iceland Express deildarinnar.

Hann var ósáttur við fyrri hálfleikinn hjá Njarðvík í kvöld, enda var það þar sem leikurinn tapaðist. Liðið var undir 58-34 í hálfleik.

"Það hefur aldrei tíðkast að lið vinni leiki þar sem fimm einstaklingar eru inni á vellinum. Í síðari hálfleik datt mönnum í hug að fara að spila saman eins og lið en því miður var leikurinn ekki nógu langur til að okkur tækist að vinna," sagði Friðrik.

Hann viðurkenndi að Jesse Rosa hefði verið Njarðvíkurliðinu erfiður í leiknum, en hann skoraði 44 stig í kvöld og var frábær í einvíginu.

"Jesse Rosa er gríðarlega góður leikmaður og hann gerði gæfumuninn fyrir þá." 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×