Körfubolti

Sex ár síðan annar bróðirinn vann síðast báða leikina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valur Ingimundarson vann báða leikina gegn bróður sínum í vetur.
Valur Ingimundarson vann báða leikina gegn bróður sínum í vetur. Mynd/Anton

Valur Ingimundarson, þjálfari Njarðvíkinga í Iceland Express deild karla, fagnaði í gær sigri á bróður sinum í nágrannaslag Keflavíkur og Njarðvíkur í Toyota-höllinni í Keflavík. Þetta var í annað skiptið í vetur sem Sigurður þarf að sætta sig við tap gegn stóra bróður því auk tíu stiga taps í gær þá vann Njarðvík fyrri leikinn með tveimur stigum í Ljónagryfjunni.

Það voru liðin sex ár síðan að annar bróðurinn náði síðast að vinna báða innbyrðisleiki tímabilsins. Bræðurnir höfðu nefnilega skipt með sér sigrunum síðustu þrjú tímabil en Sigurður stjórnaði lærisveinum sínum til sigurs í báðum leikjunum 2002-03 og 2001-02. Valur þjálfari Skallagrím 2002-03 en Tindastól tímabilið á undan. Sigurður náði einnig að vinna báða innbyrðisleiki bræðranna tímabilið 1998-99.

Valur Ingimundarson hafði ekki unnið báða deildarleikina gegn bróður sínum síðan að hann stjórnaði Tindastól til sigurs í báðum leikjunum tímabilið 1999-2000. Tindastóll vann þá báða leikina nokkuð örugglega með 14 stigum á Króknum og með 13 stigum í Keflavík.

Með þessum tveimur sigrum á Sigurði bróður sínum hefur Valur líka lagað tölfræði sína í viðureignum bræðranna í úrvalsdeildinni. Lið þeirra hafa nú mæst 18 sinnum í deildarkeppninni, lið Sigurðar hafa unnið tíu leiki en lið Vals hafa unnið átta leiki þar af þrjá síðustu.

Það má segja að gengi bræðranna hafi snúist við. Lið Sigurðar unnu þannig sjö af fyrstu tíu innbyrðisleikjum sínum gegn liðum Vals en frá árinu 2004 þá hafa lið Vals unnið fimm af átta leikjum gegn liðum Sigurðar. Hér er aðeins átt við deildarleiki liðanna.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×