Körfubolti

Oddaleikur um titilinn: Tuttugu ár hjá Nökkva milli oddaleikja um titilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Úr fyrsta leik KR og Grindavíkur.
Úr fyrsta leik KR og Grindavíkur. Mynd/Daníel

Nökkvi Már Jónsson, leikmaður Grindavíkur, er að fara að taka þátt í sínum fjórða oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn og hefur mesta reynsluna af þeim leikmönnum sem verða í búning í DHL-Höllinni í kvöld. Það eru liðin tuttugu ár síðan að hann spilaði sinn fyrsta oddaleik 22. mars 1989.

Nökkvi hefur spilað vel í öllum þessum þremur oddaleikjum þar sem hann hefur skorað 17,3 stig að meðaltali í leik. Það má búast við að hlutverk hans nú verði allt annað en þá því Nökkvi hefur aðeins spilað í samtals 6 mínútur i einvíginu til þessa.

Þess má geta að Nökkvi hefur náð þeim ótrúlega árangri að spila í lokaúrslitum um Íslandsmeistaratitilinn á níu af tíu tímabilum sem hann hefur spilað í úrvalsdeild karla. Nökkvi hefur unnið titilinn þrisvar sinnum en það eru liðin sextán ár síðan að hann varð Íslandsmeistari síðasta með Keflavík árið 1993.

Oddaleikir Nökkva um Íslandsmeistaratitilinn:

1989 með Keflavík

Skoraði 16 stig í 89-72 sigri á KR

1992 með Keflavík

Skoraði 19 stig í 77-68 sigri á Val

1994 með Grindavík

Skoraði 17 stig í 67-68 tapi fyrir Njarðvík






Fleiri fréttir

Sjá meira


×