Handbolti

Kári Kristján líklega á leiðinni til Sviss

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Eyjamaðurinn sterki heldur líklega til Sviss næsta sumar.
Eyjamaðurinn sterki heldur líklega til Sviss næsta sumar. Mynd/Anton

Flest bendir til þess að línumaðurinn Kári Kristján Kristjánsson leiki með svissneska liðinu Amicitia Zurich á næstu leiktíð.

Samkvæmt heimildum Vísis eru samningaviðræður Kára, sem leikur með Haukum, og svissneska félagsins vel á veg komnar og ekki ólíklegt að lending náist á næstu dögum.

Kára Kristjáni er ætlað að fylla það skarð sem Norðmaðurinn Frank Löke skilur eftir sig en hann hefur samið við GOG í Danmörku sem Guðmundur Guðmundsson stýrir frá og með næsta sumri.

Þetta svissneska lið er ansi sterkt. Það er núverandi svissneskur meistari og á góðri leið með að verja titilinn í ár.

Liðið hefur einnig verið að gera fína hluti í Evrópukeppni bikarhafa þar sem það er komið í átta liða úrslit eftir að hafa slegið út danska liðið Kolding í sextán liða úrslitum.

Amicitia mætir Metalurg frá Makedóníu í næstu umferð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×