Sport

Landsliðið í badminton vann Ungverjaland

Elvar Geir Magnússon skrifar
Tinna Jóhannsdóttir vann sigur í einliðaleik kvenna og tvenndarleik.
Tinna Jóhannsdóttir vann sigur í einliðaleik kvenna og tvenndarleik.

Íslenska landsliðið í badminton hóf leik á Evrópumóti landsliða með því að vinna Ungverjaland 3-2 í kvöld. Mótið fer fram í Liverpool og alls 32 þjóðir sem taka þátt.

Magnús Ingi Helgason tapaði í einliðaleik karla en vann sigur í tvíliðaleik þar sem hann keppti með Helga Jóhannessyni. Þá vann Helgi tvenndarleikinn ásamt Tinnu Jóhannsdóttur.

Tinna vann sigur í einliðaleik kvenna. Tvíliðaleikur kvenna tapaðist þar sem Karítas Ósk Ólafsdóttir og Snjólaug Jóhannsdóttir kepptu.

Ragna Ingólfsdóttir, Katrín Atladóttir og Sara Jónsdóttir sem allar hafa verið í íslenska landsliðinu um árabil gátu ekki gefið kost á sér í Evrópumótið að þessu sinni. Það er því ungt og óreynt íslenskt kvennalið sem tekur þátt í mótinu ásamt nokkuð reyndum karlspilurum.

Ísland er í 7. riðli með Ítalíu, Ungverjalandi og Úkraínu sem fyrirfram er talin sterkasta þjóðin í riðlinum. Úkraína vann Ítalíu örugglega í dag en íslenska liðið mætir Ítalíu á miðvikudag og því úkraínska á fimmtudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×