Handbolti

Hitar upp með Hebba og Europe í græjunum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Árni sést hér fyrir aftan Gunnar Magnússon, aðalþjálfara HK.
Árni sést hér fyrir aftan Gunnar Magnússon, aðalþjálfara HK. Mynd/Anton

„Við verðum þarna kolklikkaðir feðgarnir á sitt hvorum bekknum í kvöld. Þetta verður bara æðislegt," sagði kátur Árni Stefánsson, aðstoðarþjálfari HK, en HK er á leið norður til þess að mæta liði Akureyrar í mikilvægum leik í N1-deildinni.

Aðstoðarþjálfari Akureyrarliðsins er sonur Árna, Stefán, og má því búast við fjöri á hliðarlínunni líkt og Árni hefur reyndar lofað.

„Hann er alveg eins og snýttur út úr nefinu á pabba sínum. Hann er ótrúlega líkur mér. Við erum báðir alveg bandbrjálaðir á bekknum og látum vel í okkur heyra."

Árni var lengi vel aðstoðarmaður KA og er mikill Akureyringur. Hann segir því sérstaka tilhlökkun að fara norður.

„Það er alltaf æðislegt að fara norður. Þetta verður vonandi líka frábær skemmtun, fullt hús og bara eins og í gamla daga," sagði Árni en hann er ánægður að sjá að stemningin á Akureyri sé að verða eins og hún var þegar hann var þar á sínum tíma.

„Það yljar mér um hjartaræturnar að sjá hvernig þetta er að verða. Mjög ánægjulegt að sjá hvernig þessi sameining hefur gengið fyrir sig og bara allt jákvætt."

Leikurinn í kvöld er ákaflega mikilvægur fyrir bæði lið. HK er í 5. sæti með 17 stig en Akureyri í 6. sæti með 15. Hvorugt lið má því varla við því að tapa og þá sérstaklega ekki Akureyri sem er nánast úr leik í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni með tapi.

Árni var í miklu stuði heima hjá sér þegar Vísir náði tali af honum áðan og var að undirbúa sig fyrir leik á sama hátt og hann hefur gert í mörg ár.

„Ég er núna að hlusta á Can´t walk away með Hebba. Hebbi klikkar ekki og kemur mér alltaf í gírinn. Svo hlusta ég líka á The Final Countdown með Europe og þá er ég klár í slaginn," sagði Árni léttur sem fyrr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×