Fótbolti

Birkir: Flottasta markið mitt á ferlinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birkir Bjarnason sést hér í leik með 21 árs landsliðinu.
Birkir Bjarnason sést hér í leik með 21 árs landsliðinu. Mynd/Stefán

Birkir Bjarnason skoraði stórglæsilegt mark í norsku úrvalsdeildinni í gær þegar hann kom liði sínu í Viking á bragðið í 5-2 sigri á Lyn.

„Ég er búin að fá mikil viðbrögð við þessu marki og ég er mjög ánægður með það," sagði Birkir Bjarnason i samtali við Vísi.

„Ég myndi segja að þetta væri flottasta mark sem ég hef skorað á ferlinum," sagði Birkir sem fékk boltann út á kanti, lék strax á tvo varnarmenn, klobbaði þann þriðja áður en hann stakk sér inn í teiginn. Þar fór hann framhjá öðrum varnarmanni áður en hann lyfti boltanum af mikilli yfirvegun yfir markmanninn sem kom út á móti honum.

„Ég sá að það opnaðist fyrir mig möguleikinn á að sækja á þá og ég lét bara vaða," segir Birkir sem spilar á þriggja manna miðju hjá Viking og kann vel við sig þar.

„Það er búið að ganga mjög vel í sumar, ég er búinn að skora 5 mörk sem ég er mjög ánægður með," sagði Birkir en hann vonast til þess að liðið getið hækkað sig í töflunni á næstu vikum.

„Liðið hefur verið á uppleið í síðustu leikjum og það eru bara þrjú stig upp í fjórða sætið," segir Birkir.

Birkir Bjarnason hefur ekki fengið tækifæri með íslenska A-landsliðinu en hefur örugglega minnt vel á sig með frammistöðunni að undanförnu.

„Það væri gaman að fá að spila með landsliðinu í haust og ég fær vonandi möguleika á því. Ég hugsa fyrst og fremst um að standa mig með Viking," segir Birkir.

Það er hægt að skoða mark Birkis hér.

 












Fleiri fréttir

Sjá meira


×