Körfubolti

Ég er ekkert hættur að þjálfa

Einar Árni Jóhannsson
Einar Árni Jóhannsson

Einar Árni Jóhannsson þjálfari Breiðabliks í Iceland Express deildinni tilkynnti í gærkvöld að hann væri hættur störfum hjá félaginu. Það var karfan.is sem greindi frá þessu.

Einar skilaði Blikum í úrslitakeppnina þrátt fyrir að liðinu hefði verið spáð falli í haust, en liðið var auk þess nokkuð óheppið með meiðsli í vetur. Hann segist ekki hafa tíma til að vera jafnmikið á ferðinni næsta vetur og undanfarin tvö keppnistímabil, en hann er búsettur í Njarðvík.

"Ég tilkynnti stjórninni þetta fyrir nokkrum vikum síðan. Ég var búinn að reyna að láta það ganga upp að vera svona mikið á ferðinni en þetta púsluspil gengur einfaldlega ekki upp," sagði Einar Árni, sem skilur vel við Blikana.

"Ég hef átt gott samstarf við stjórnarmenn hjá Breiðablik á þessum tveimur árum og hef ekkert nema gott um það að segja. Ég hefði viljað halda áfram en fjölskyldunnar vegna varð ég að taka þessa ákvörðun," sagði Einar Árni, sem valinn var besti þjálfarinn í fyrri umferðunum í deildinni í vetur.

Hann er þó ekki hættur í körfubolta þó hann sé hættur að þjálfa í úrvalsdeild, enda hefur hann um árabil verið á fullu í þjálfun.

"Ég er búinn að þjálfa í sextán ár svo það er klárt að ég er ekki hættur. Ég varð bara að vera nærri heimahögunum. Ég ætla bara að taka mér smá tíma til að slaka á núna og svo sér maður til," sagði Einar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×