Körfubolti

85 prósent oddaleikjanna hafa unnist heima

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stjörnumenn hafa ekki söguna með sér gegn Snæfelli í kvöld.
Stjörnumenn hafa ekki söguna með sér gegn Snæfelli í kvöld. Mynd/Vilhelm

Snæfell og Stjarnan mætast í kvöld í oddaleik í átta liða úrslitum Iceland Express deildar karla í körfubolta. Það lið sem vinnur leikinn sem fram fer í Stykkishólmi er komið í undanúrslit Íslandsmótsins.

Vinni Snæfellingar þá mæta þeir Grindavík í undanúrslitunum en vinni Stjarnan þá mæta þeir deildarmeisturum KR í næstu umferð. Keflavík, KR og Grindavík bíða því öll úrslita kvöldsins til að fá að vita hverjir verða mótherjar þeirra í undanúrslitaviðureignunum.

Sagan er ekki með Stjörnumönnum í kvöld þrátt fyrir stórsigur í síðasta leik.

Þetta er 27. oddaleikur sögunnar í átta liða úrslitum úrslitakeppni karla í körfubolta og hafa heimaliðin unnið 22 af 26 leikjum eða 85 prósent.

Síðasta lið til þess að vinna oddaleik á útivelli í átta liðum úrslitakeppninnar voru ÍR-ingar í fyrra en þeir unnu þá 93-74 sigur á þá ríkjandi Íslandsmeisturum KR-inga og slógu þá út.

Stjarnan vann leik tvö en þau lið sem hafa tapað fyrsta leiknum hafa aðeins náð að vinna 6 af þessum 26 oddaleikjum eða aðeins 24 prósent leikjanna.

Síðasta liðið til að ná því að tryggja sig inn í undanúrslit eftir tap í fyrsta leik voru KR-ingar árið 2007. Þeir lentu 0-1 undir á móti ÍR en unnu tvo leiki í röð og fóru síðan alla leið og urðu Íslandsmeistarar.

Stjarnan vann síðasta leik með 20 stiga mun og varð þar með aðeins þriðja liðið sem tryggir sér oddaleik í átta úrslitum með því að vinna leik tvö með 20 stigum eða meira.

Grindavík jafnaði metin á móti Tindastól 2001 með 27 stiga sigri en Tindastóll vann oddaleikinn á heimavelli 79-75.

Snæfell jafnaði metin á móti KR 2005 með 25 stiga sigri í Vesturbænum og komst síðan áfram með því að vinna oddaleikinn 116-105 á heimavelli í Hólminum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×