Sport

Favre sigraði í endurkomunni til Green Bay

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Favre faðmar hér sinn gamla félaga, Donald Driver, eftir leikinn í gær.
Favre faðmar hér sinn gamla félaga, Donald Driver, eftir leikinn í gær.

Augu bandarískra íþróttaáhugamanna voru öll í Green Bay í gær. Þá snéri Brett Favre aftur á sinn gamla heimavöll og að þessu sinni í búningi nágrannaliðsins, Minnesota Vikings.

Favre fékk kaldar móttökur frá fólkinu sem hefur dáð hann í tæp 20 ár. Það var baulað á Favre. Það leyndi sér ekki að hann naut þess ekki að vera óvinurinn á Lambeau Field en Favre reyndi að ýta því frá sér.

Þrátt fyrir að vera meiddur á nára átti Favre stórleik, kastaði fjórum sinnum fyrir snertimarki og sá til þess að Vikings vann góðan útisigur á Green Bay, 38-26. Það sem meira er þá kastaði hann engum bolta frá sér.

„Stuðningsmenn Packers styðja sitt lið fyrst og fremst. Ég vona samt að fólkið í stúkunni hafi hugsað að ég hafi spilað eins og ég hafi alltaf spilað," sagði Favre.

Arftaki hans hjá Packers, Aaron Rodgers, var arfaslakur í fyrri hálfleik en reif sig upp í þeim síðari. Það var aftur á móti of lítið og of seint.

„Þetta var þess virði. Núna getur fólk séð af hverju ég kom til baka og af hverju ég fór í þetta lið. Ég er samt dauðfeginn að þessum leik er lokið," sagði Favre.

Minnesota er búið að vinna sjö leiki en aðeins tapa einum. Packers er aftur á móti í vandræðum með að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×