Körfubolti

KR-ingar deildarmeistarar eftir stórsigur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Benedikt Guðmundsson er búinn að gera KR-liðið að deildarmeisturum.
Benedikt Guðmundsson er búinn að gera KR-liðið að deildarmeisturum. Mynd//Daníel

KR-ingar tryggðu sér deildarmeistaratitilinn í Iceland Express deild karla með 35 stiga sigri á Skallagrími, 62-97 í Borgarnesi í kvöld. KR er búið að vinna 20 af 21 deildarleik sínum á tímabilinu.

KR hefur ekki orðið deildarmeistari í úrvalsdeild karla í 19 ár eða síðan að liðið vann 23 af 26 leikjum sínum undir stjórn Laszlo Nemeth veturinn 1989-1990. KR var búið að vera í 2. sæti undanfarin tvö tímabil.

Jakob Örn Sigurðarson átti frábæran leik en hann skoraði 27 stig, gaf 6 stoðsendingar og stal 4 boltum í leiknum. Það merkilegasta við hans frammistöðu var að hann hitti úr öllum ellefu skotunum sínum þar af voru þrjú fyrir utan þriggja stiga línuna.

Jason Dourisseau skoraði 12 stig fyrir KR og Skarphéðinn Freyr Ingason og Helgi Már Magnússon voru með tíu stig hvor.

Landon Quick skoraði 23 stig og gaf 9 stoðsendingar hjá Skallagrími og þjálfarinn Igor Beljanski var með 21 stig.

Grindavík og Keflavík unnu einnig örugga sigra í sínum leikjum í kvöld, Grindavík vann FSu með 22 stigum á heimavelli sínum, 107-85, og Keflavík vann 28 stiga sigur á Tindastól á Króknum, 91-63.

Nick Bradford skoraði 20 stig fyrir Grindavík og Arnar Freyr Jónsson var með 18 stig, 7 fráköst og 9 stoðsendingar. Þá skoraði Brenton Birmingham 17 stig. Hjá FSu var Sævar Sigurmundsson með 25 stig og 9 fráköst og Árni Ragnarsson bætti við 22 stigum, 14 fráköstum og 5 stoðsendingum.

Hörður Axel Vilhjálmsson skoraði 30 stig fyrir Keflavík á Króknum og Gunnar Einarsson og Jón Norðdal Hafsteinsson voru báðir með 13 stig. Friðrik Hreinsson skoraði 17 stig fyrir Tindastól.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×