Körfubolti

Oddaleikur um titilinn: Friðrik jafnar met Teits Örlygssonar í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Friðrik Ragnarsson, þjálfari Grindavíkur, þekkir þessa stöðu vel.
Friðrik Ragnarsson, þjálfari Grindavíkur, þekkir þessa stöðu vel. Mynd/Daníel

Friðrik Ragnarsson, þjálfari Grindavíkur, jafnar met Teits Örlygssonar í kvöld þegar hann tekur þátt í sínum fimmta oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn sem leikmaður eða þjálfari. Teitur lék fimm oddaleiki um titilinn og vann þrjá þeirra.

KR og Grindavík spila hreinan úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn í Iceland Express deild karla í kvöld en leikurinn hefst klukkan 19.15 í DHL-Höllinni í Frostaskjóli.

Friðrik spilaði með Njarðvík sem tapaði í framlengingu á móti Haukum í oddaleik 1988, vann Keflavík í oddaleik 1991, vann Grindavík á útivelli í oddaleik 1994 og tapaði fyrir Keflavík í oddaleik 1999.

Teitur Örlygsson er sá eini sem hefur spilað fimm oddaleiki um Íslandsmeistaratitilinn en Friðrik lék við hlið hans í fjórum þeirra. Teitur skoraði 66 stig í þessum fimm leikjum eða 13,2 að meðaltali í leik. Friðrik skoraði 31 stig í sínum fjórum eða 7,8 stig að meðaltali í leik.

Friðrik er einn af fjórum sem hafa náð að spila fjóra úrslitaleiki um Íslandsmeistaratitilinn en hinir eru Guðjón Skúlason, Ísak Tómasson og Hjörtur Harðarson.

Sigurður Ingimundarson hefur tekið þátt í fjórum oddaleikjum um titilinn (þrír sem leikmaður og einn sem þjálfari) og þá mun Nökkvi Már Jónsson spila sinn fjórða úrslitaleik um titilinn í kvöld.

Flestir oddaleikur um Íslandsmeistaratitil karla í körfubolta:

5 Teitur Örlygsson (allir sem leikmaður)

5 Friðrik Ragnarsson (4 sem leikmaður - 1 sem þjálfari)

4 Guðjón Skúlason (allir sem leikmaður)

4 Ísak Tómasson (allir sem leikmaður)

4 Hjörtur Harðarson (allir sem leikmaður)

4 Sigurður Ingmundarson (3 sem leikmaður - 1 sem þjálfari)

4 Nökkvi Már Jónsson (allir sem leikmaður)






Fleiri fréttir

Sjá meira


×