Körfubolti

Grindavík fyrst áfram

Páll Axel Vilbergsson í leik með Grindavík.
Páll Axel Vilbergsson í leik með Grindavík. Mynd/Anton

Grindavík vann í kvöld sigur á ÍR, 85-71, í leik liðanna í fjórðungsúrslitum úrslitakeppni Iceland Express deildar karla. Liðið vann þar með einvígið, 2-0, og þar með sæti í undanúrslitunum. Grindavík er fyrsta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitunum.

Grindavík byrjaði mun betur í leiknum og var staðan að loknum fyrsta leikhluta var 29-16. Páll Axel Vilbergsson gaf tóninn með því að setja niður þrjá þrista á fyrstu mínútunni og koma Grindavík í 9-0.

Grindvíkingar léku mjög vel í fyrsta leikhluta og heimamenn gátu lítið annað gert en að reyna að elta þá.

ÍR-ingar vöknuðu svo sannarlega til lífsins í öðrum leikhluta og náðu að minnka forystu gestanna í fjögur stig, 42-38. Grindvíkingar náðu því ekki að fylgja eftir góðri byrjun sinni í leiknum.

Grindavík náði svo aftur yfirhöndinni í þriðja leikhluta og kmost í sautján stiga forystu fyrir lokaleikhlutann, 71-54. ÍR-ingar misstu þar að auki Ómar Sævarsson af velli með tvær tæknivillur.

Gestirnir náðu svo að halda öruggri forystu á lokamínútum leiksins og fögnuðu góðum sigri.

Nick Bradford og Páll Axel voru með 21 stig hvor í leiknum fyrir Grindavík og Þorleifur Ólafsson átján. Hjá ÍR var Hreggviður Magnússon stigahæstur með sautján stig, Steinar Arason skoraði sextán og Ómar Örn Sævarsson fjórtán.




















Fleiri fréttir

Sjá meira


×