Sport

Ásdís og Bergur Ingi kasta á Kanarí

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ásdís Hjálmsdóttir og Bergur Ingi Pétursson.
Ásdís Hjálmsdóttir og Bergur Ingi Pétursson. Mynd/Vilhelm

Ásdís Hjálmsdóttir Ármanni og Bergur Ingi Pétursson FH hafa verið valin til að keppa á níunda Vetrarkastmóti Evrópu, sem fram fer á Los Realejos á Tenerife, 14.-15. mars næstkomandi. Bergur keppir í sleggjukasti en Ásdís í spjótkasti.

Bergur Ingi keppti á 8. Vetrarkastmótinu í Split í Króatíu á síðasta ári og náði þá 9. sæti af 20 keppendum. Bergur bætti á því móti eigið Íslandsmet úr 70,52m í 73,00 metra. Bergur Ingi bætti síðan Íslandsmetið enn frekar í Kaplakrika 25. maí þegar hann kastið sleggjunni 74,48 metra.

Ásdís hefur ekki keppt áður á Vetrarkastmótinu, en hún bætti eigið Íslandsmet í spjótkasti úr 57,10m í 59,80 metra á síðasta ári. Þeim árangri náði Ásdís á móti í Lapinlahti í Finnlandi 20. júlí.

Bæði sleggjukast karla og spjótkast kvenna fer fram á seinni degi mótins, sunnudaginn 15. mars nk. Þjálfarar í ferðinni verða Eggert Bogason, þjálfari Bergs Inga og Stefán Jóhannsson, þjálfari Ásdísar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×