Handbolti

Haukarnir eru eins og Detroit Pistons

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Rúnar Kárason.
Rúnar Kárason. Mynd/Anton

„Það er virkilega góð stemning hjá okkur fyrir leikinn í kvöld og menn staðráðnir í því að klára dæmið á heimavelli," sagði Framarinn Rúnar Kárason við Vísi en Fram og Haukar mætast öðru sinni í undanúrslitum N1-deildar karla í kvöld.

Fram leiðir einvígið 1-0 eftir óvæntan sigur á Ásvöllum og kemst með sigri í kvöld í úrslitarimmuna gegn annað hvort Val eða HK.

„Það er enn mikið hungur í liðinu og við ætlum okkur stóra hluti," sagði Rúnar sem segir alltaf erfitt að mæta Haukum sem státa af frábærri vörn.

„Haukarnir eru eiginlega eins og Detroit Pistons. Þeir eru ákaflega harðir í horn að taka og ég á ekki von á að þeir muni draga úr hörkunni í kvöld," sagði Rúnar en Pistons-strákarnir hafa oftar en ekki gengið undir nafninu „Bad Boys".

Hann segist ekki eiga sér neinn óskaandstæðing í úrslitum eftir að Fram kemst þangað eins og hann gerir ráð fyrir.

„Ég var á rútunni á leið heim frá Akureyri eftir lokaleik mótsins og þá fékk ég hugboð um að Fram og HK mætist í úrslitum. Ég held mig við að það muni gerast," sagði Rúnar sposkur.

HSÍ TV verður með báða leikina í beinni sjónvarpsútsendingu.

Hægt er að sjá leik HK og Vals hér og leik Fram og Hauka hér.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×