Fjölmargir hafa haft samband við fréttastofu í kvöld og talið að eldgos væri hafið á nýjum stað í grennd við gossprunguna á Fimmvörðuhálsi. Sérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir svo ekki vera.
Í vefmyndavél fjarskiptafyrirtækisins Mílu á Þórólfsfelli sést bjarmi á tveimur stöðum. Fyrr í kvöld höfðu starfsmenn Veðurstofunnar samband við lögregluna á Hvolsvelli sem staðfesti að gos væri ekki hafið á nýjum stað, en eldgosið á Fimmvörðuhálsi sést vel frá Hvolsvelli. Sérfræðingur Veðurstofunnar fullyrðir að bjarminn sem sést í vefmyndavél Mílu stafi af hrauntungu sem renni niður og bræði á leiðinni ís og snjó. Við það myndist gríðarlega mikil gufa.
Míla hefur sett upp upp tvær myndbandstökuvélar í nánd við gossvæðið á Fimmvörðuhálsi og opnað fyrir beina útsendingu í gegnum vefsíðu fyrirtækisins. Önnur myndavélin er á mastri á Hvolsvelli. Hin er á Þórólfsfelli, norðanmegin við Eyjafjallajökul.
Fjölmennur fundur á Hvolsvelli
Nú fer fram fjölmennur upplýsingafundur í íþróttamiðstöðinni á Hvolsvelli sem sýslumaðurinn og almannavarnir boðuðu til. Í seinnifréttum Ríkissjónvarpsins kom fram að 300 til 400 íbúar væru á fundinum og að Kjartan Þorkelsson, sýslumaður, hafi byrjað mál sitt á því að þakka íbúum fyrir samstarfið í kringum rýminguna. Það hafi verið til fyrirmyndar.
Þá kom fram sveitarstjórnarmenn hafa áhyggjur af auknum ferðamannastraumi á svæðið og að sveitarstjórnin ætli að koma upp aðstöðu fyrir fólk á litlum bílum við Fljótsdal og vísa á gönguleiðir upp á Þórólfsfell.