Körfubolti

Umfjöllun: Stjarnan áfram á beinu brautinni

Elvar Geir Magnússon í Garðabæ skrifar
Teitur Örlygsson og félagar lögðu Njarðvík.
Teitur Örlygsson og félagar lögðu Njarðvík.

Stjarnan vann 91-81 sigur á Njarðvík í kvöld en þetta var þriðji sigurleikur liðsins í röð. Ekki er hægt að segja annað en sigurinn hafi verið sanngjarn þó spenna hafi óvænt hlaupið í leikinn í lokin.

Þessi tvö lið voru jöfn að stigum fyrir leikinn í kvöld en þau unnu bæði góða sigra í umferðinni á undan, Stjarnan sótti bæði stigin til Keflavíkur og Njarðvík lagði Íslandsmeistarana í Snæfelli.

Njarðvíkingar tefldu fram miðherjanum Christopher Smith í fyrsta sinn en hann lék í búningi Fjölnis síðasta vetur.

Heimamenn voru á undan nánast allan fyrri hálfleikinn og leiddu með átta stiga mun að loknum fyrsta fjórðungi. Í byrjun annars náðu gestirnir að saxa vel á forskotið en þá settu Stjörnumenn aftur í fluggírinn.

Mögnuð flautukarfa Óla Ragnars Alexanderssonar, leikmanns Njarðvíkur, rétt fyrir hálfleikinn sá til þess að Stjarnan fór með tíu stiga forystu til búningsherbergja en ekki þrettán. Staðan 52-42 í hálfleik.

Eftir hlé var lengi alls ekki útlit fyrir að einhver spenna yrði á lokasprettinum en annað átti eftir að koma á daginn.

Sóknarleikur Stjörnunnar datt skyndilega úr sambandi og þegar fjórar mínútur voru eftir var forysta Garðbæinga allt í einu aðeins fimm stig. En þá sögðu þeir hingað og ekki lengra og sigldu stigunum tveimur í höfn.

Stjarnan - Njarðvík 91-81 (52-42)

Stjarnan: Justin Shouse 23/7 fráköst/6 stoðsendingar, Jovan Zdravevski 19/5 fráköst, Fannar Freyr Helgason 16/7 fráköst, Marvin Valdimarsson 15/8 fráköst, Daníel G. Guðmundsson 9, Birkir Guðlaugsson 6, Ólafur Aron Ingvason 2, Kjartan Atli Kjartansson 1.

Njarðvík: Christopher Smith 29/8 fráköst, Guðmundur Jónsson 15, Kristján Rúnar Sigurðsson 9, Hjörtur Hrafn Einarsson 7/6 fráköst, Páll Kristinsson 5/4 fráköst, Lárus Jónsson 5, Rúnar Ingi Erlingsson 4, Egill Jónasson 4/4 fráköst, Óli Ragnar Alexandersson 3, Friðrik E. Stefánsson 0/5 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 2.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×