Körfubolti

Fannar: Höfum meiri breidd en ÍR

Elvar Geir Magnússon skrifar
Mynd/Stefán

KR vann öruggan sigur á ÍR í Seljaskóla í kvöld 103-81. Vesturbæjarliðið er því komið áfram í undanúrslit Iceland Express-deildarinnar.

„Við erum með meiri breidd en ÍR og létum reyna á þá breidd allan leikinn. Mér fannst gasið vera búið hjá þeim í seinni hálfleik eins og í síðasta leik. Það er erfitt að hlaupa á sex til sjö mönnum á meðan við getum hlaupið á níu," sagði Fannar Ólafsson, fyrirliði KR, eftir leik.

ÍR-ingar náðu góðum kafla í þriðja leikhluta og spenna kom í leikinn. KR-ingar spýttu þá í lófana og keyrðu yfir heimamenn.

„Við héldum alveg ró okkar, vorum tveimur stigum yfir þegar minnst var. Þá var tekið leikhlé og eftir það var þetta aldrei spurning. Við vissum að við þyrftum bara að ná einbeitingu aftur og laga vörnina. Jarvis var búinn að skora of mikið. Hann er hörkuleikmaður en við náðum að loka betur á hann. Þá fór þetta að fljóta."

Ekki er ljóst hverjir verða mótherjar KR í undanúrslitum.

„Ég geri ráð fyrir að einhverjir aðrir leikir fari í þrjá leiki og þá erum við ekki að fara að spila fyrr en á mánudaginn. Fáum góða viku. Tommy (Johnson) þarf að jafna sig, hann fór illa úr lið á puttanum. Við getum þá farið inn í páskana frekar rólegir. Við ætlum að hafa það náðugt," sagði Fannar Ólafsson.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×