Körfubolti

Ræðst ekki fyrr en í upphitun hvort Sean Burton verði með í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells.
Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells. Mynd/Arnþór
Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, er ekki öruggur með að geta teflt fram bandaríska leikstjórnandanum Sean Burton sem tognaði illa í oddaleiknum á móti KR. Ingi Þór var í viðtali í hádegisfréttum Bylgjunnar.

„Sean Burton er ekki búinn að æfa neitt síðan í oddaleiknum á móti KR. Við ætlum að reyna að lappa upp á hann í dag og það verður allt reynt til þess að hann verði með. Það ræðst samt ekki fyrr en í upphitunni hvort hann verði með eða ekki," sagði Ingi Þór.

„Við erum samt hvergi bangnir og það eru allir aðrir leikmenn heilir. Við stefnum líka á það að nota Burton í kvöld," sagði Ingi.

„Þetta einvígi leggst gríðarlega vel í mig og það er mikil tilhlökkun í mínu liði. Það er gaman að fá að njóta þess að hafa lagt gríðarlega sterkt KR-lið að velli og fá að kljást við ennþá sterkara Keflavíkurlið," sagði Ingi en fyrsti úrslitaleikur Keflavíkur og Snæfells hefst í Toyota-höllinni klukkan 19.15 í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×