Körfubolti

Aðeins þrír leikmenn í kvöld hafa spilað áður úrslitaleik um titilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nick Bradford í baráttu um frákast í oddaleiknum í fyrra.
Nick Bradford í baráttu um frákast í oddaleiknum í fyrra. Mynd/Daníel
Það eru aðeins þrír leikmenn í liðum Keflavíkur og Snæfells sem þekkja það að spila hreinan úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn. Það eru Keflvíkingarnir Gunnar Einarsson og Nick Bradford og Snæfellingurinn Pálmi Freyr Sigurgeirsson.

Nick Bradford og Pálmi voru báðir með í oddaleiknum í fyrra milli KR og Grindavík og eru því komnir í þessa aðstöðu annað árið í röð.

Nick Bradford átti frábæran leik í fyrra og var með 33 stig og 73 prósent skotnýtingu (11 af 15) en það dugði þó ekki til því Grindavík tapaði leiknum 83-84.

Pálmi Freyr Sigurgeirsson var aftur á móti í sigurliði KR í þessum leik en hann lék í 18 mínútur í leiknum og var með 3 stig, 2 fráköst og 1 stoðsendingu á þeim.

Gunnar Einarsson var í sigurliði Keflavíkur í hreinum úrslitaleik um titilinn á móti nágrönnum sínum í Njarðvík árið 1999. Gunnar var með 13 stig í leiknum og hitti þar úr 3 af 6 þriggja stiga skotum sínum.

Guðjón Skúlason, þjálfari Keflavíkur, er í fyrsta sinn að taka þátt í oddaleik um titilinn sem þjálfari en hann spilaði fjóra slíka leiki sem leikmaður og vann þrjá þeirra (1989, 1992 og 2009). Hann er með 11,5 stig að meðaltali í þessum fjórum leikjum.

Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, var aðstoðarþjálfari KR í fyrra þegar liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn eftir hreinan úrslitaleik á móti Grindavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×