Bréfberinn og skáldið Þorvaldur Gylfason skrifar 16. desember 2010 06:00 Pablo Neruda elskaði lífið. Sumir segja, að hann hafi dáið úr sorg. Hann fæddist í Síle 1904, hóf snemma að yrkja kvæði og flæktist um heiminn, fór víða, því að í huga hans var lífið samfelld leit að ævintýrum eins og hann lýsir vel í viðburðaríkri sjálfsævisögu sinni (Memoirs, 1974). Hann var um skeið konsúll í Búrmu, Seylon og Austur-Indíum, löndin heita nú Mjanmar, Sri Lanka og Indónesía, og hann varð með tímanum eitt dáðasta ljóðskáld heimsins. Hann var sæmdur Nóbelsverðlaunum 1971, tveim árum fyrir andlátið. Ástarkvæði hans eru mikil að vöxtum, þar á meðal eru ástarkvæðin til ættjarðarinnar, en auk þeirra orti hann um næstum allt, sem heiti hefur, jafnvel sokkana sína. Tungan lék í höndum hans: þegar við tölum um líf og dauða, talaði hann um líf og gröf. Hann orti um sofandi hendur og um úrið, sem brytjaði tímann. Hann orti ekki um fúin fiskinet, heldur sorgum vafin veiðarfæri. Heildarútgáfa á kvæðum hans spannar 3.500 síður, og fáein þeirra eru til í íslenzkri þýðingu. Til dæmis hefur Guðrún H. Tuliníus menntaskólakennari þýtt tvö verk eftir Neruda, Tuttugu ljóð um ást og einn örvæntingarsöngur (2001) og Hæðir Machu Picchu (2005). Kvæði hans hafa verið þýdd á mörg tungumál, trúlega langt umfram flest önnur ljóðskáld. Tónskáld semja sönglög við ljóðin hans. Hér má nefna frábæran lagaflokk eftir bandaríska tónskáldið Peter Lieberson við fimm ástarkvæði eftir Neruda. Eiginkona tónskáldsins, Lorraine Hunt Lieberson, söng lögin inn á disk (Neruda Songs, 2006) með miklum brag undir stjórn James Levine, aðalhljómsveitarstjóra Metropolitanóperunnar í New York og sinfóníuhljómsveitarinnar í Boston.Útlegð á Ítalíu Um Pablo Neruda hafa verið skrifaðar skáldsögur. Þeirra þekktust er sagan, sem síðar var gerð að ítölsku kvikmyndinni Bréfberinn (Il postino, 1994). Myndin segir frá útlegð skáldsins á eynni Kaprí utan við Napólí 1952. Síleski kommúnistaflokkurinn, sem hann sat á þingi fyrir, hafði verið bannaður með lögum 1948, svo að Neruda neyddist til að flýja land árið eftir. Hann komst við illan leik á hestbaki yfir ísi lögð landamærin til Argentínu og þaðan áfram til Evrópu. Bréfberinn, sem færir útlagaskáldinu póst með reglulegu millibili, reynist sjálfur vera skáld og skerpir skáldgáfuna á fundum sínum með Neruda. Hann dreymir um að vinna hylli stúlkunnar, sem hann elskar, með því að yrkja til hennar. Þetta tókst, en þó ekki betur en svo, að Massimo Troisi, leikarinn og skáldið, sem fór með hlutverk bréfberans og uppskar heimsfrægð, dó aðeins rösklega fertugur að aldri tólf klukkustundum eftir að tökum myndarinnar lauk. Hann hafði frestað hjartaaðgerð til að tefja ekki tökurnar. Myndin var útnefnd til Óskarsverðlauna sem bezta mynd ársins 1995, en hún laut í lægra haldi fyrir Braveheart með Mel Gibson. Myndin um bréfberann og skáldið lifir. Óperuhúsið í Los Angeles fékk mexíkóska tónskáldið Daniel Catan til að semja óperu eftir myndinni. Óperan var frumflutt nú í haust þar vestra með Placido Domingo í hlutverki Pablos Neruda. Verkið mælist vel fyrir og verður sýnt í París og Vín á nýju ári. Sagt er, að óperugestirnir hafi margir gengið syngjandi út úr salnum að lokinni sýningu. Þetta var 132. sviðshlutverk Domingos á löngum og glæsilegum ferli. Domingo er nú 69 ára eins og Neruda var, þegar hann féll frá.Skáldskapur og stjórnmál Neruda tók sér stöðu með kommúnistum gegn þeim, sem héldu Síle í sárri fátækt. Stjórnvöld voru öll á bandi landeigenda. Fátækt almennings lýsti sér í því, að 1960 gátu nýfædd börn vænzt þess að ná 57 ára aldri í Síle borið saman við 70 ár í Bandaríkjunum og 71 ár hér heima. Marxistinn Salvador Allende vann sigur í forsetakosningum 1970. Þrem árum síðar gerði herinn loftárás á forsetahöllina. Forsetinn svipti sig lífi frekar en að falla í hendur hersins, og Neruda dó tólf dögum síðar, bugaður af sorg. Herinn var síðan við völd í 15 ár undir stjórn Augustos Pinochet hershöfðingja. Hann reyndist ekki aðeins vera mannréttindabrjótur og morðingi, heldur einnig mútuþegi og þjófur. Slíkum mönnum ber að óska langlífis, svo að þeir megi heyra dóm sögunnar. Pinochet varð nógu gamall til að fá að heyra sannleikann um sjálfan sig í sjónvarpinu innan lands og utan. Nýfædd börn í Síle geta nú vænzt þess að lifa lengur (79 ár) en bandarísk börn (78). Neruda getur tekið gleði sína aftur. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Þorvaldur Gylfason Mest lesið Er píparinn þinn skattsvikari? Kristinn Karl Brynjarsson Skoðun Kæra unga móðir Jóna Þórey Pétursdóttir Skoðun Kosningar og ,ehf gatið‘ Róbert Farestveit Skoðun Verði þitt val, svo á jörðu sem á himni Halldóra Lillý Jóhannsdóttir Skoðun Grípum tækifærin og sköpum bjartari framtíð Ísak Leon Júlíusson Skoðun Rekin út fyrir að vera kennari Álfhildur Leifsdóttir Skoðun Halldór 9.11.2024 Halldór Frelsi til að búa þar sem þú vilt Sæunn Gísladóttir Skoðun Það sem má alls ekki tala um... Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Fólk eða fífl? Anna Gunndís Guðmundsdóttir Skoðun
Pablo Neruda elskaði lífið. Sumir segja, að hann hafi dáið úr sorg. Hann fæddist í Síle 1904, hóf snemma að yrkja kvæði og flæktist um heiminn, fór víða, því að í huga hans var lífið samfelld leit að ævintýrum eins og hann lýsir vel í viðburðaríkri sjálfsævisögu sinni (Memoirs, 1974). Hann var um skeið konsúll í Búrmu, Seylon og Austur-Indíum, löndin heita nú Mjanmar, Sri Lanka og Indónesía, og hann varð með tímanum eitt dáðasta ljóðskáld heimsins. Hann var sæmdur Nóbelsverðlaunum 1971, tveim árum fyrir andlátið. Ástarkvæði hans eru mikil að vöxtum, þar á meðal eru ástarkvæðin til ættjarðarinnar, en auk þeirra orti hann um næstum allt, sem heiti hefur, jafnvel sokkana sína. Tungan lék í höndum hans: þegar við tölum um líf og dauða, talaði hann um líf og gröf. Hann orti um sofandi hendur og um úrið, sem brytjaði tímann. Hann orti ekki um fúin fiskinet, heldur sorgum vafin veiðarfæri. Heildarútgáfa á kvæðum hans spannar 3.500 síður, og fáein þeirra eru til í íslenzkri þýðingu. Til dæmis hefur Guðrún H. Tuliníus menntaskólakennari þýtt tvö verk eftir Neruda, Tuttugu ljóð um ást og einn örvæntingarsöngur (2001) og Hæðir Machu Picchu (2005). Kvæði hans hafa verið þýdd á mörg tungumál, trúlega langt umfram flest önnur ljóðskáld. Tónskáld semja sönglög við ljóðin hans. Hér má nefna frábæran lagaflokk eftir bandaríska tónskáldið Peter Lieberson við fimm ástarkvæði eftir Neruda. Eiginkona tónskáldsins, Lorraine Hunt Lieberson, söng lögin inn á disk (Neruda Songs, 2006) með miklum brag undir stjórn James Levine, aðalhljómsveitarstjóra Metropolitanóperunnar í New York og sinfóníuhljómsveitarinnar í Boston.Útlegð á Ítalíu Um Pablo Neruda hafa verið skrifaðar skáldsögur. Þeirra þekktust er sagan, sem síðar var gerð að ítölsku kvikmyndinni Bréfberinn (Il postino, 1994). Myndin segir frá útlegð skáldsins á eynni Kaprí utan við Napólí 1952. Síleski kommúnistaflokkurinn, sem hann sat á þingi fyrir, hafði verið bannaður með lögum 1948, svo að Neruda neyddist til að flýja land árið eftir. Hann komst við illan leik á hestbaki yfir ísi lögð landamærin til Argentínu og þaðan áfram til Evrópu. Bréfberinn, sem færir útlagaskáldinu póst með reglulegu millibili, reynist sjálfur vera skáld og skerpir skáldgáfuna á fundum sínum með Neruda. Hann dreymir um að vinna hylli stúlkunnar, sem hann elskar, með því að yrkja til hennar. Þetta tókst, en þó ekki betur en svo, að Massimo Troisi, leikarinn og skáldið, sem fór með hlutverk bréfberans og uppskar heimsfrægð, dó aðeins rösklega fertugur að aldri tólf klukkustundum eftir að tökum myndarinnar lauk. Hann hafði frestað hjartaaðgerð til að tefja ekki tökurnar. Myndin var útnefnd til Óskarsverðlauna sem bezta mynd ársins 1995, en hún laut í lægra haldi fyrir Braveheart með Mel Gibson. Myndin um bréfberann og skáldið lifir. Óperuhúsið í Los Angeles fékk mexíkóska tónskáldið Daniel Catan til að semja óperu eftir myndinni. Óperan var frumflutt nú í haust þar vestra með Placido Domingo í hlutverki Pablos Neruda. Verkið mælist vel fyrir og verður sýnt í París og Vín á nýju ári. Sagt er, að óperugestirnir hafi margir gengið syngjandi út úr salnum að lokinni sýningu. Þetta var 132. sviðshlutverk Domingos á löngum og glæsilegum ferli. Domingo er nú 69 ára eins og Neruda var, þegar hann féll frá.Skáldskapur og stjórnmál Neruda tók sér stöðu með kommúnistum gegn þeim, sem héldu Síle í sárri fátækt. Stjórnvöld voru öll á bandi landeigenda. Fátækt almennings lýsti sér í því, að 1960 gátu nýfædd börn vænzt þess að ná 57 ára aldri í Síle borið saman við 70 ár í Bandaríkjunum og 71 ár hér heima. Marxistinn Salvador Allende vann sigur í forsetakosningum 1970. Þrem árum síðar gerði herinn loftárás á forsetahöllina. Forsetinn svipti sig lífi frekar en að falla í hendur hersins, og Neruda dó tólf dögum síðar, bugaður af sorg. Herinn var síðan við völd í 15 ár undir stjórn Augustos Pinochet hershöfðingja. Hann reyndist ekki aðeins vera mannréttindabrjótur og morðingi, heldur einnig mútuþegi og þjófur. Slíkum mönnum ber að óska langlífis, svo að þeir megi heyra dóm sögunnar. Pinochet varð nógu gamall til að fá að heyra sannleikann um sjálfan sig í sjónvarpinu innan lands og utan. Nýfædd börn í Síle geta nú vænzt þess að lifa lengur (79 ár) en bandarísk börn (78). Neruda getur tekið gleði sína aftur.