Körfubolti

Bárður: Ætli þetta ráðist ekki bara á síðasta skotinu í leiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bárður Eyþórsson, þjálfari Fjölnis.
Bárður Eyþórsson, þjálfari Fjölnis. Mynd/Stefán
KR og Snæfell leika í kvöld hreinan úrslitaleik um sæti í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í Iceland Express deild karla í körfubolta. Vísir fékk Bárð Eyþórsson, þjálfara Fjölnis til þess að spá í leik kvöldsins sem hefst klukkan 19.15 í DHL-höllinni í Frostaskjóli og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

„Ég treysti mér ekki til að spá fyrir um sigurvegara en ég vona að Snæfell vinni," sagði Bárður Eyþórsson.

„Snæfellingar þurfa að halda Brynjari áfram frá því að skora og þeir þurfa að reyna að hægja einhvern veginn á Morgan Lewis. Þeir þurfa gera betur í að hægja á honum þannig að hann sé ekki með svona góða skotnýtingu eins og hann hefur verið með. Tommy Johnson kemur líka þarna inn og þeir þurfa að halda honum áfram út úr þessu," segir Bárður.

„Snæfell þarf að reyna að halda Tommy Johnson á þeim stað sem hann er á með núll af eitthvað í skotum. Það er greinilega einhver pirringur hjá KR-ingum út í hann og Snæfell þarf að reyna að viðhalda því," segir Bárður.

„Þeir þurfa líka að halda áfram að halda boltanum frá Pavel eins og þeir hafa gert. Þeir hafa gert það mjög vel í leikjunum í DHL-höllinni," segir Bárður.

„Það yrði stórkostlegt afrek fyrir Hólmarana að ná að vinna í þriðja skiptið í röð í DHl-höllinni. KR er á heimavelli og það verður pakkað og því hljóta þeir að teljast vera sigurstranglegri. Það þó að þeir séu búnir að tapa tvisvar fyrir Snæfelli þarna," segir Bárður og bætir við:

„Ætli þetta ráðist ekki bara á síðasta skotinu í leiknum, tveimur sekúndum fyrir leikslok. Það á síðan eftir að koma í ljós hvort liðið það verður sem fagnar sigri," sagði Bárður að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×