Handbolti

Sturla: Viljum sýna okkar rétta andlit

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sturla Ásgeirsson í leik með Val.
Sturla Ásgeirsson í leik með Val. Mynd/Valli
Sturla Ásgeirsson, fyrirliði Vals, á von á erfiðum leik þegar að liðið mætir Selfossi í fjórðungsúrslitum Eimskipsbikarkeppni karla. Dregið var í hádeginu í dag.

„Við spiluðum við þá í deildinni í haust og töpuðum þá. Þeir eru með gríðarlegan sterkan heimavöll og þó svo að Selfyssingar hafa ekki unnið marga leiki hefur enginn átt auðvelt með að sækja sigurinn þangað," sagði Sturla en leikurinn fer fram á Selfossi í byrjun næsta mánðar.

„Þetta verður hörkuviðureign. Þessi lið eru með jafn mörg stig í deildinni og því væntanlega hnífjafn leikur. En það er allt hægt í bikarnum," bætti Sturla við.

Valsmenn hafa byrjað illa á leiktíðinni en liðið fékk í síðustu viku sín fyrstu stig í deildinni eftir sigur á Aftureldingu í Mosfellsbænum.

„Það er gott að hafa bikarkeppnina og vonandi getum við sýnt okkar rétta andlit í henni. Það hafa verið batamerki á liðinu og ég vonast til þess að þetta sé allt að koma hjá okkur og að við förum að hala inn fleiri stigum í deildinni," sagði Sturla.

„Það hefur verið betri holning á liðinu í síðustu leikjum og við höfum verið miklu nær andstæðingum okkar en í upphafi leiktíðar. Þetta voru að sjálfsögðu mjög erfiðar vikur enda aldrei gaman að gera ekkert nema að tapa. En vonandi er komin breyting þar á."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×