Reykjavíkurmót karla í knattspyrnu hefst í Egilshöllinni í kvöld en þá fara fram tveir leikir, annarsvegar viðureign Vals og Víkings sem hefst kl. 19:15 og hinsvegar leikur KR og ÍR sem hefst kl. 21:00.
Gunnlaugur Jónsson, þjálfari Vals, mun þarna stjórna Valsmönnum í fyrsta mótsleiknum en Gunnlaugur tók við þjálfun Vals síðasta haust af Atla Eðvaldssyni. Gunnlaugur hafði þá gert frábæra hluti með Selfossliðið og komið því upp í efstu deild karla í fyrsta sinni í sögu þess.
Valsmenn unnu síðast Reykjavíkurmeistaratitilinn fyrir fimm árum en fimm félög hafa unnið titilinn frá 2005, Valur (2005), Fram (2006), Fylkir (2007), ÍR (2008) og svo KR í fyrra.
Allir leikir Reykjavíkurmótsins, í karla- og kvennaflokki, fara fram í Egilshöllinni en konurnar hefja leik á morgun þegar KR og HK/Víkingur mætast kl. 19:00.