Fótbolti

Gunnar Heiðar við Tipsbladet: Ég vil bara spila fótbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnar Heiðar Þorvaldsson fagnar marki meðan allt gekk vel hjá Halmstad.
Gunnar Heiðar Þorvaldsson fagnar marki meðan allt gekk vel hjá Halmstad. Mynd/AFP
Gunnar Heiðar Þorvaldsson sat mikið á varamannabekknum á síðasta tímabili hjá bæði danska liðinu Esbjerg sem og enska liðinu Reading. Framtíð hans er í mikill óvissu og danska Tipsbladet spurði hann út í næstu skref.

„Ég veit ekkert. Það lítur út fyrir að ég snúi aftur til Esbjerg 1. júlí en ef ég á að vera alveg heiðarlegur þá veit ég ekkert hvernig mín mál munu þróast í sumar," sagði Gunnar Heiðar við Tipsbladet.

Gunnar Heiðar er með samning til Esbjerg í eitt ár til viðbótar en hann hefur ekki fengið mörg tækifæri hjá Ove Pedersen, þjálfara Esbjerg, sem treystir á Danann Jesper Lange og Hollendinginn Tim Janssen í framlínu liðsins. Jesper skoraði 5 mörk í 31 leik á síðasta tímabili en Tim var með 15 mörk í 32 leikjum.

„Ég vil bara spila fótbolta hvort sem að það verður í Esbjerg, í Englandi eða á Íslandi. Ég hef ekki talað við Ove Pedersen og því veit ég ekki hvað bíður mín í Esbjerg," sagði Gunnar Heiðar við Tipsbladet.

Gunnari Heiðari hefur gengið illa að festa sig í sessi síðan að hann var markakóngur sænsku deildarinnar með Halmstad 2005. Hann hefur síðan spilað með þýska liðinu Hannover, norska liðinu Valerenga, danska liðinu Esbjerg og enska liðinu Reading.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×