Innlent

Hálfs kílómetra breið sprunga í Toppgíg

Breki Logason skrifar

Gruggug jökulvatnið þreyttist af toppi Eyjafjallajökuls, niður Gígjökul, fyllti lónið þar fyrir neðan áður en það rann niður í Markarfljótið.

Sprungan í Toppgíg jökulsins er um 2 kílómetrar á lengd og 500 metrar á breidd. Rúmlega þrjár Hallgrímskirkjur af ís eru í gígnum, en hann er um 250 metrar að þykkt.

Þegar við flugum yfir jökulinn með vísindamönnum eldsnemma í morgun áttuðu menn sig á því að það gaus úr Toppgígnum en ekki í sunnanverðum jöklinum eins og menn héldu í upphafi. Gosmökkurinn var tignarlegur og fór sífellt stækkandi.

Vatnsrennslið í Gígjökli óx jafnt og þétt í Lónið fyrir ofan Markarfljót og fór að fyllast. Eins og sést á þessari skýringarmynd fór hlaupið þessa leið niður eftir Markarfljóti og var töluverður kraftur í því rétt eftir hádegi í dag, en seinni partinn fór það minnkandi.

Menn áttuðu sig svo á því að um kílómeter frá sprungunni hafði annar minni gígur myndast og fór þá að renna í suður niður Svaðbælisá sunnan megin.

Mikill kraftur var í hlaupinu sem tók niður gömlu Markarfljótbrúnna en með því að rjúfa vegi með stórri gröfu var miklu bjargað. Ljóst er þó að tjón er töluvert.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×