Landsliðið og endurreisnin 22. janúar 2010 06:00 Í gærmorgun sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra að þjóðin þyrfti að líta til landsliðsins í handbolta um fyrirmyndir í vörn og sókn í atvinnu- og efnahagsmálum á næstu árum. Því miður reyndist forsætisráðherra þarna ákaflega seinheppinn í vali á fyrirmyndum. Eftir brokkgenga spilamennsku, en þegar sigur á Austurríki virtist þó í sjónmáli, klúðruðu strákarnir okkar hlutunum á svo ævintýralegan hátt að það hefði verið fyndið ef það hefði ekki verið svona sorglegt. Það eina sem mögulega getur slegið þessum mistökum við í framtíðinni er ef einhver íslensku leikmannanna ákveður að þruma boltanum í eigið mark í leikslok. Atburðarásin undir lok leiks landsliðsins gegn Austurríki í gærkvöldi var reyndar eins og orðum Jóhönnu hefði verið snúið við; að leikmenn handboltalandsliðsins hefðu ákveðið að taka sér til fyrirmyndar hvernig þjóðin þeirra hefur kosið að standa að endurreisn efnahagslífsins heima fyrir. Síðastliðið haust leit út fyrir að skriður væri að komast á efnahagsáætlun stjórnvalda. Mark Flanagan, yfirmaður sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gagnvart Íslandi, sagði afrek að tekist hefði að endurfjármagna helstu banka landsins á rúmu ári. Benti hann á að í öðrum löndum, sem höfðu glímt við álíka vanda, hafi tekið 24 til 36 mánuði að koma fjármálakerfinu í svipað horf. Á sama tíma kom fram það mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að stjórnvöld væru komin lengra á veg við að draga úr ríkisútgjöldum en gert var ráð fyrir. Þetta var í lok október. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var loks búinn að afgreiða endurskoðun sína á íslensku áætluninni og Evrópski fjárfestingarbankinn hafði í kjölfarið affryst 30 milljarða króna lán til Orkuveitu Reykjavíkur. Landið virtist vera að rísa. En svo kom sjálfstortímingarhvötin til sögunnar, rétt eins og hjá landsliðinu við lok leiksins við Austurríki. Stór hluti þjóðarinnar, ásamt stjórnarandstöðuflokkunum, stjórnarandstöðuarmi ríkisstjórnarinnar og forsetanum ákvað að færa stöðu mála aftur um fimmtán mánuði með ákvörðun um þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave. Þetta gerðist þrátt fyrir viðvaranir úr fjölmörgum áttum. Þar á meðal frá forystumönnum launþegasamtaka og atvinnulífsins. Efnahagslífið þolir ekki áframhaldandi óvissu. Ríkið, opinber fyrirtæki og bankar verða að hafa aðgang að lánsfé á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, voru samhljóma viðbrögð Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, og Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra SA. Sá aðgangur er úr sögunni á meðan enn og aftur er beðið eftir Icesave. Og óvissan er ekki aðeins á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, þar sem skuldatryggingarálagið á Ísland hækkar dag frá degi, heldur hríslast hún út í hvert horn samfélagsins. Ábyrgðin á þessari dýrkeyptu pattstöðu er ekki stjórnmálamannanna. Þeir fara ekki lengra en þjóðin leyfir þeim, eins og er vert að rifja upp nú þegar ár er liðið frá Búsáhaldabyltingunni. Ef þjóðin kýs óvissu, þá fær hún óvissu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Jón Kaldal Mest lesið Er píparinn þinn skattsvikari? Kristinn Karl Brynjarsson Skoðun Kæra unga móðir Jóna Þórey Pétursdóttir Skoðun Kosningar og ,ehf gatið‘ Róbert Farestveit Skoðun Verði þitt val, svo á jörðu sem á himni Halldóra Lillý Jóhannsdóttir Skoðun Grípum tækifærin og sköpum bjartari framtíð Ísak Leon Júlíusson Skoðun Rekin út fyrir að vera kennari Álfhildur Leifsdóttir Skoðun Halldór 9.11.2024 Halldór Frelsi til að búa þar sem þú vilt Sæunn Gísladóttir Skoðun Fólk eða fífl? Anna Gunndís Guðmundsdóttir Skoðun Öryggis annarra vegna… Ingunn Björnsdóttir Skoðun
Í gærmorgun sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra að þjóðin þyrfti að líta til landsliðsins í handbolta um fyrirmyndir í vörn og sókn í atvinnu- og efnahagsmálum á næstu árum. Því miður reyndist forsætisráðherra þarna ákaflega seinheppinn í vali á fyrirmyndum. Eftir brokkgenga spilamennsku, en þegar sigur á Austurríki virtist þó í sjónmáli, klúðruðu strákarnir okkar hlutunum á svo ævintýralegan hátt að það hefði verið fyndið ef það hefði ekki verið svona sorglegt. Það eina sem mögulega getur slegið þessum mistökum við í framtíðinni er ef einhver íslensku leikmannanna ákveður að þruma boltanum í eigið mark í leikslok. Atburðarásin undir lok leiks landsliðsins gegn Austurríki í gærkvöldi var reyndar eins og orðum Jóhönnu hefði verið snúið við; að leikmenn handboltalandsliðsins hefðu ákveðið að taka sér til fyrirmyndar hvernig þjóðin þeirra hefur kosið að standa að endurreisn efnahagslífsins heima fyrir. Síðastliðið haust leit út fyrir að skriður væri að komast á efnahagsáætlun stjórnvalda. Mark Flanagan, yfirmaður sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gagnvart Íslandi, sagði afrek að tekist hefði að endurfjármagna helstu banka landsins á rúmu ári. Benti hann á að í öðrum löndum, sem höfðu glímt við álíka vanda, hafi tekið 24 til 36 mánuði að koma fjármálakerfinu í svipað horf. Á sama tíma kom fram það mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að stjórnvöld væru komin lengra á veg við að draga úr ríkisútgjöldum en gert var ráð fyrir. Þetta var í lok október. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var loks búinn að afgreiða endurskoðun sína á íslensku áætluninni og Evrópski fjárfestingarbankinn hafði í kjölfarið affryst 30 milljarða króna lán til Orkuveitu Reykjavíkur. Landið virtist vera að rísa. En svo kom sjálfstortímingarhvötin til sögunnar, rétt eins og hjá landsliðinu við lok leiksins við Austurríki. Stór hluti þjóðarinnar, ásamt stjórnarandstöðuflokkunum, stjórnarandstöðuarmi ríkisstjórnarinnar og forsetanum ákvað að færa stöðu mála aftur um fimmtán mánuði með ákvörðun um þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave. Þetta gerðist þrátt fyrir viðvaranir úr fjölmörgum áttum. Þar á meðal frá forystumönnum launþegasamtaka og atvinnulífsins. Efnahagslífið þolir ekki áframhaldandi óvissu. Ríkið, opinber fyrirtæki og bankar verða að hafa aðgang að lánsfé á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, voru samhljóma viðbrögð Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, og Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra SA. Sá aðgangur er úr sögunni á meðan enn og aftur er beðið eftir Icesave. Og óvissan er ekki aðeins á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, þar sem skuldatryggingarálagið á Ísland hækkar dag frá degi, heldur hríslast hún út í hvert horn samfélagsins. Ábyrgðin á þessari dýrkeyptu pattstöðu er ekki stjórnmálamannanna. Þeir fara ekki lengra en þjóðin leyfir þeim, eins og er vert að rifja upp nú þegar ár er liðið frá Búsáhaldabyltingunni. Ef þjóðin kýs óvissu, þá fær hún óvissu.