Körfubolti

Keflvíkingar fá tvöfaldan liðstyrk fyrir KR-leikinn í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Skúlason, þjálfari Keflavíkur.
Guðjón Skúlason, þjálfari Keflavíkur. Mynd/Daníel
Keflvíkingar hafa styrkt sig fyrir átök kvöldsins þegar KR kemur í heimsókn í 5. umferð Iceland Express deildarinnar í körfubolta. Keflavíkurliðið hefur fengið tvöfaldan liðstyrk því auk þess að Serbinn Lazar Trifunovic er orðinn löglegur þá mun Valentino Maxwell spila á ný eftir langvinn meiðsli.

Lazar Trifunovic er 23 ára og 203 sm framherji sem lék með Radford háskólanum í Bandaríkjunum síðasta vetur. Hann var þar með 13,0 stig, 8,1 frákst og 2,4 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Valentino Maxwell lék með Keflavík í Lengjubikarnum þar sem hann var með 19,0 stig, 4,0 fráköst og 4,0 stoðsendingar í leik en hefur misst af fyrstu fjórum deildarleikjum liðsins vegna meiðsla.

Keflvíkingar ætla sér því að gera allt til þess að enda tvær taphrinur í kvöld. Þeir eru búnir að tapa þremur leikjum í röð í Iceland Express deildinni og hafa ennfremur tapað fjórum heimaleikjum í röð á móti KR sem þeir hafa ekki unnið í Toyota-höllinni síðan í nóvember 2007.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×