Körfubolti

Ingi Þór: Þetta var rándýrt

Henry Birgir Gunnarsson í Röstinni skrifar

Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, var algjörlega búinn á því eftir ótrúlegan sigur hans liðs á Grindavík í Röstinni í kvöld.

„Sem betur fer er Rabbi gamli með hjartatöflur í vasanum. Þetta var alveg rándýrt og sveiflurnar í þessum leik voru ótrúlegar. Við vorum meðvitundarlausir í tvo leikhluta en frábær karakter að koma til baka og klára þetta," sagði Ingi sveittur eftir leik.

„Það eru allir sveittir og þreyttir. Ég held að þeir sem eru á bekknum séu jafn þreyttir og þeir sem voru inn á vellinum."

Snæfell kom til baka í lokaleikhlutanum með tvo leikmenn - Sigurð Þorvaldsson og Jón Ólaf Jónsson - inn á sem höfðu fengið fjórar villur.

„Það er betra að hafa þá inn á með fjórar og láta þá fá fimmtu villuna en hafa þá á bekknum. Við vorum í mjög erfiðri stöðu og vorum að leggja algjörlega frábært lið af velli. Ég er gríðarlega stoltur að við höfum snúið þessu svona við."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×